152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[13:44]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir góð og greinargóð svör. Ég ætla að taka upp þráðinn þar sem endað var í umræðu um loftslagsmál og losun. En áður en ég geri það langar mig aðeins að skjótast inn í umræðu sem var hér fyrr þegar hv. þm. Birgir Þórarinsson átti orðastað við ráðherra um ættliðaskipti í landbúnaði. Bara til að leggja áherslu á það í þessari umræðu verður grunnurinn að ættliðaskiptum alltaf sá að það sé afkoma í greininni sem menn eru að vinna við. Það er grunnurinn að því að við getum haft eðlilega ættliðaskipti. En mig langar í þessu samhengi, þar sem ég veit að hæstv. ráðherra er vel heima þegar við komum að landgræðslu og skógrækt og þeim mikilvæga þætti sem þessar tvær stofnanir koma til með að leika í framtíðinni varðandi bindingu kolefnis og uppgræðslu á landi, að spyrja hvort nú sé ekki lag og hvort ekki sé skynsamlegt fyrir okkur, til þess að efla þessar stofnanir, að skoða mjög vel að renna þessum tveimur stofnunum saman, þ.e. Skógræktinni og Landgræðslunni. Það hafa því miður stundum komið upp á milli þessarar ágætu stofnanna — þær hafa ekki alltaf verið sammála um hvert skuli stefna í lífinu, eins og gengur. En ég hef þá trú að ef við myndum taka þessar stofnanir og sameina þær þá fengjum við þarna gríðarlega öfluga stofnun sem tæki á þessum þætti og það er náttúrlega feiknalega mikilvægt verkefni sem fram undan er í bindingu kolefnis.