152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl. .

531. mál
[16:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að hérna hafi komi fram ábending um atriði sem gæti reynt á en hefur ekki reynt á í þeim skilningi að það sé ekki vandamál við þær aðstæður sem nú eru uppi. Eins og fram kemur í athugasemdinni þá hefur ráðuneytið talið að það færi ekki vel á því að sjálfseignarstofnun færi með slík þvingunarúrræði heldur mætti það kannski frekar falla undir verksvið Seðlabankans og Fjármálaeftirlits hans að bregðast við ef fyrirtæki í fjármálaþjónustu á Íslandi sinna ekki lögbundnum skyldum sínum. Þó að þetta atriði varði lögin almennt þá má setja það engu að síður í samhengi við þær breytingar á iðgjaldagreiðslur sem við erum að gera hér. En mér finnst sjálfsagt að nefndin vinni aðeins með þessa athugasemd þannig að það væri þá rakið hvers konar viðbrögð kæmu úr stjórnkerfinu, t.d. að stjórn sjóðsins vekti athygli Seðlabankans á þeirri staðreynd að það vantaði að menn væru að fylgja lögbundnum reglum um innborganir. Þá geri ég ráð fyrir að lög opni fyrir möguleika eftirlitsaðila til að bregðast við í samræmi við tilefnið.