152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl. .

531. mál
[17:17]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Það má vel vera eins og hv. þingmaður segir, að hér sé í reynd verið að þýða og leggja fyrir Alþingi, sem kemur þá kannski inn á aðra spurningu varðandi Evrópumálin þegar rætt er um aðkomu Íslands. Við sjáum það reglubundið í innleiðingarmálunum að hér koma inn mál trekk í trekk án nokkurrar einustu aðkomu og er það virkilega þannig að það sé betra að eiga engan mann við borðið en að eiga mann við borðið? En mér finnst þessi þýðing, þegar við erum komin með evrugjaldmiðilinn inn í íslenska lagasetningu án þess að hann sé að forminu til hluti af okkar veruleika, varpa ljósi á stóra sögu og stóran sannleika sem er, eins og hv. þingmaður nefndi, að fjöldinn allur af fyrirtækjum gerir þegar upp í evru, tekur þátt í því að vinna innan þess gjaldmiðils vegna þess að það hentar þeim betur að gera það. Eftir situr venjulegt fólk á Íslandi í veruleika íslensku krónunnar, með laun í krónu, lán í krónu, vexti í krónuumhverfi og með verðbólgu í samræmi við krónuumhverfið. Þannig að ég held að þessi litla og sakleysislega þýðing hérna segi okkur töluvert stærri sögu en kannski við blasir.