152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl. .

531. mál
[17:19]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að þetta sé alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, þetta segir okkur stærri sögu um ákveðna, eins og ég talaði um áðan, úreldingu í raun og veru. Það verður alltaf flóknara og erfiðara að viðhalda örmynt í sífellt stærra alþjóðahagkerfi. Krónan er eins og einhver tala á spotta risastóra kerfisins og hún hristist eins og maður veit ekki hvað þegar eitthvað hreyfist á stóra sviðinu. Þá flöktir krónan fram og til baka og hristist hingað og þangað. Það væri alveg hægt að gera svipaða hluti og Danmörk gerir t.d., alla vega sem fyrsta skref, að fara kannski ekki alveg í fastbindingu við evruna en byrja að taka fyrst lausbindingu. Danir eru samt alveg hryllilega harðir á sinni lausbindingu, þar eru þeir með viðmið, frávik frá evrunni, sem má flökta innan á hverjum tíma, yfir ákveðinn tíma þannig að snöggar breytingar hafa ekki áhrif. Þeir segja bara: Það jafnar sig út á einhverjum tíma. Það eru uppsafnaðar breytingar á löngum tíma sem þeir þurfa að horfa á og stilla sig af gagnvart. Við erum svo rosalega mikið í núinu. Ó nei, gengið er að breytast núna. Og það er alveg skiljanlegt af því að við erum að reyna að viðhalda sjálfstæðum gjaldmiðli og öllu því flökti sem því fylgir í staðinn fyrir að miða að gjaldeyrisstöðugleika þegar allt kemur til alls. Það er kannski búið að vera að reyna það aðeins meira með því að safna gjaldeyrisvaraforða sem hefur haft jákvæð áhrif á verðbólguþróun. (Forseti hringir.) En miðað við þetta þá held ég að þetta sé alveg rétt hjá þingmanni, þetta sýnir okkur fram á ákveðna úreldingu sem við þurfum að taka alvarlega.