152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl. .

531. mál
[17:22]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir skemmtilegar hugleiðingar. Það frumvarp sem við erum að ræða hérna í dag snýst auðvitað um innleiðingu á ákvæðum í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/59, um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, skulum kalla þetta bara BRRD eins og er gert í frumvarpinu. Það er kannski ágætt að vekja athygli á því hér að Eftirlitsstofnun EFTA hefur hafið formlega málsmeðferð gegn Íslandi vegna tafa við að innleiða þessa tilskipun að fullu. Ég vil kannski biðja hv. þingmann að velta því aðeins fyrir sér með mér: Hvað tefur þessa innleiðingu? Hvers vegna er alltaf þessi halli, þessi innleiðingarhalli hjá okkur? Hvernig væri hægt að greiða betur úr þessu og gera þetta hratt og örugglega án þess þó að fórna því mikilvæga hlutverki sem er það að okkur á Alþingi gefist kostur á að rýna mjög vel þær gerðir sem koma frá Evrópusambandinu og okkur ber að innleiða?