152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl.

531. mál
[18:12]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Að ná utan um svona stórt og mikið mál er fjarska erfitt enda sjáum við að við erum búin að vera með þessa hluti lengi uppi á borðum og höfum verið skömmuð af Evrópusambandinu fyrir að sjá ekki til þess að þessar gerðir og tilskipanir rati inn í lögin okkar. Maður sér svo sem tilganginn með öllu þessu, að búa til einhvern grunn þannig að ef illa fer þá sé til einhver „böffer“ til að tryggja þá sem eru með sitt undir í þessu. En þegar hv. þingmaður fór að minnast á þá aðila sem eru núna orðnir eigendur eða hluthafar í fjármálafyrirtækjum, aðilar sem urðu til þess að við sáum bankakerfið okkar falla eins og spilaborg á sínum tíma, þeir séu komnir aftur inn, það kveikir í manni og maður fer að velta fyrir sér hvort hægt sé með einhverjum ráðum eða hvort svona löggjöf getur hjálpað til við að setja upp einhvers konar girðingar sem geta komið í veg fyrir þetta. Við sjáum það gerast svo víða að aðilar stökkva inn og út og bera enga ábyrgð og svo situr ríkið uppi með allt saman og kannski íslenskur almenningur. Sjáum við að það sé einhver möguleiki á því að koma í veg fyrir slíkt?