152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl. .

531. mál
[18:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er hægt að búa til einhverjar leikreglur sem tryggja það að eignarhald á fyrirtækjum sem eru jafn mikilvæg og fjármálafyrirtækin sé í höndum traustra aðila. Við erum með alls konar sambærilegar reglur. Hér fyrr í dag talaði hæstv. fjármálaráðherra í einhverjum hæðnistón um að það væri verið að búa til lista yfir æskilega eigendur banka. Þó það nú væri. Það eru til alls konar listar um fólk sem er æskilegt til hins og þessa eða óæskilegt. Mamma mín reyndi t.d. að opna reikning í Íslandsbanka um daginn og þurfti að svara alls konar spurningum af því að sonur hennar er þingmaður til að tryggja það að hún væri ekki í einhverju peningaþvættisbrasi. Auðvitað. Þetta er bara hluti af því regluverki sem við höfum innleitt til að tryggja bæði gagnsæi og koma í veg fyrir spillingu. Það er greinilega ekki jafn stíft þegar kemur að eignarhaldinu á Íslandsbanka og það er á gólfinu þegar fólk er að stofna reikninga. Aldrei hefði mér dottið í hug að í hópi þeirra sem fengu sérstakt boð um að kaupa hlutabréf í bankanum — við erum ekki að tala um eitthvert fólk sem bara rambaði inn á hlutabréfamarkaðinn og keypti þar bréf sem voru á lausu, nei, þetta var fólk sem var kallað sérstaklega til og boðið að kaupa á undirverði — væri fjöldinn allur af fólki sem var bara stórir leikendur í hruninu sem hlóðu upp spilaborgina sem allur almenningur þurfti síðan að bera byrðarnar af, skildu eftir sig tugmilljarða þrotabú sem viðkomandi þurftu ekkert að gera upp. Það voru aðrir sem öxluðu þær byrðar. Mér finnst alveg ótrúlegt að svona stuttu síðar (Forseti hringir.) séu sömu aðilar komnir í sama rekstur með gullið boðskort frá fjármálaráðherra.