152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl. .

531. mál
[18:17]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hefur verið þannig í mínum huga að það sem hefur bætt íslenskt regluverk hefur komið að utan. Einhverra hluta vegna virðumst við ekki vera tilbúin til að takast á við þessa hluti sem eru oft og tíðum bara stórhættulegir fyrir samfélag okkar að því að hér erum við fá og hér ríkir ákveðinn klíkuskapur og frændhygli sem ræður oft ferðinni. Ég minnist þess þegar við vorum virkir umsækjendur um aðild að Evrópusambandinu og ég sem aðili að Alþýðusambandi Íslands ásamt fleirum fengum í heimsókn fulltrúa frá ESB og þeir voru í raun og veru bara alveg gáttaðir. Hvar er kerfið? Hvar eru kerfin sem þið eruð að vinna eftir? Þannig upplifir maður þetta. Maður sér kennitöluflakkið alveg út og suður og það er alltaf sagt: Það er ekki hægt að stoppa það, það er ekki bannað að fara á hausinn. En íslenskur almenningur þarf að hafa einhverjar varnir gagnvart slíku af því að þetta veldur stórskaða í samfélaginu. Menn eru að hlaupa til að kaupa á lánum og svo situr bara íslenskur almenningur uppi með þetta. Ég myndi gjarnan vilja vita ef þingmaðurinn sæi einhverjar varnir í þessum tilskipunum sem við erum að ræða núna sem gætu gert það að verkum að við yrðum betur varin og að þessir tryggingarsjóðir virki þannig að til séu þeir fjármunir sem geta bætt skaðann sem verður ef illa fer.