153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

fjármögnun háskólastigsins.

[11:15]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Við getum verið sammála um það að við eigum að gera betur. Við viljum stefna þangað að háskólarnir okkar séu samkeppnishæfir og að mennta fyrir það sem samfélagið þarf og fyrir það sem við vitum ekki einu sinni í dag að við munum þurfa og þar er verk að vinna.

Varðandi það sem hv. þingmaður kemur inn á, að nemendur séu að skila sér verr inn í íslenska háskóla, þá er það líka rétt. Við erum að mennta færri miðað við stærð miðað við löndin í kringum okkur og við þurfum að skoða ástæður sem liggja þar að baki. Ein ástæðan gæti m.a. verið sú að þú ert ekki að fá það mikla launahækkun eða að launajöfnuður er orðinn það mikil milli þess að fara ekki í háskólanám og að bæta við sig háskólanámi að þú sjáir ekki tækifærin í því að mennta þig meira. Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða í samanburði auðvitað við löndin í kringum okkur.

Hv. þingmaður kemur líka inn á skrásetningargjaldið sem við erum að skoða en það hefur ekki verið hækkað síðan 2013. Grunnframfærsla nemanda var hækkuð um 18% í fyrra og hefur ekki verið hækkuð jafn mikið í mörg ár. (Forseti hringir.) Við þurfum áfram að gera betur gagnvart Menntasjóði námsmanna og við breyttum kerfinu, (Forseti hringir.) síðasti menntamálaráðherra, til að líkjast betur norrænu stuðningskerfi. En það er greinilega enn þá margt að kerfinu miðað við ábendingarnar sem hafa komið og sú vinna stendur yfir.