Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:20]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mig langar að nefna nokkur dæmi um breytingar á þessu frumvarpi frá því að það kom fyrst fram, breytingar sem fyrst og fremst hafa orðið fyrir tilstilli VG. Stærsta breytingin er sú að meginreglan um heimild útlendingalaga um að taka mál til efnismeðferðar, þó svo að viðkomandi sé með vernd í öðru landi, stendur óhögguð og sama á við um ákvæði um sérstök tengsl við Ísland eða sérstakar aðstæður. Þannig voru fyrri frumvörp ekki. Við í VG stóðum líka fyrir því að ekki væri hægt að fella niður réttindi til þjónustu hjá sérstaklega viðkvæmum hópum þegar um brottvísun er að ræða og þannig voru fyrri frumvörp heldur ekki. Þá fengum við líka inn ákvæði um að ávallt skuli framkvæma sérstakt hagsmunamat fyrir börn og þannig voru fyrri frumvörp ekki. Ég minni líka á að með samþykkt frumvarpsins tryggjum við að þau sem hér hljóta dvalarleyfi af mannúðarástæðum eða vegna sérstakra tengsla við landið þurfa ekki lengur að sækja sérstaklega um atvinnuleyfi.

Virðulegi forseti. Já, við greiðum hér atkvæði um viðkvæmt mál. Við í VG höfum alltaf haft mannúð að leiðarljósi í útlendingamálum og komið afar mikilvægum breytingum til leiðar í þessu máli.