Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:36]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að viðurkenna það að ég, bæði læs og lögfræðingur, er algerlega hætt að botna nokkurn skapaðan hlut í því sem hér fer fram. Það er í fyrsta lagi talað um að hér hafi verið örfáir einstaklingar á árinu í fyrra sem hafi komið og eiginlega ekkert fleiri en 2016. Staðreyndin er sú að hér var 3.455 einstaklingum veitt alþjóðleg vernd á Íslandi í fyrra — 3.455, þar af 2.316 frá Úkraínu og 728 frá Venesúela. Ég mun vera hér og mæla fyrir breytingartillögum fyrir hönd okkar góða þingmanns, Eyjólfs Ármannssonar, sem er nú að sinna störfum í Vestnorræna ráðinu í Færeyjum og fjarri góðu gamni. Hann hefði náttúrlega verið miklu færari og hæfari til að lesa ykkur pistilinn en ég. En allar þessar breytingartillögur eru eingöngu til að styðja við þetta frumvarp, til þess að vernda börn, til þess að gefa þeim kost á betri aðbúnaði, til að einfalda hlutina og gera þá skilvirkari. Þannig að allir þeir sem hrópa hér að hér sé bara allt saman í ruglinu og geri ekki nokkurn skapaðan hlut hljóta náttúrlega að greiða atkvæði með breytingartillögum sem ég mun mæla fyrir fyrir hönd Eyjólfs Ármannssonar.