Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:51]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Íslensk stjórnvöld hafa tekið vel á móti þeim sem hingað leita á flótta. Viðkomandi fær þjónustu á kostnað ríkisins og það er gott. Viðkomandi leggur inn beiðni til Útlendingastofnunar um alþjóðlega vernd. Hann fær liðsinni löglærðs fulltrúa sem við jú greiðum. Þegar Útlendingastofnun hefur samt sem áður komist að þeirri niðurstöðu að viðkomandi uppfylli ekki þau skilyrði sem sett eru í íslenskum lögum og alþjóðasáttmálum um hvað er að vera á flótta þá fær hann synjun. Viðkomandi fær aftur aðstoð löglærðs fulltrúa á okkar kostnað til að málið geti farið fyrir kærunefnd útlendingamála. Ef kærunefnd útlendingamála kemst líka að þeirri niðurstöðu að rétt hafi verið farið með málið hjá Útlendingastofnun, að viðkomandi sé ekki flóttamaður, eigi ekki rétt á alþjóðlegri vernd, þá er auðvitað ósköp eðlilegt að hann falli ekki lengur undir þann flokk að vera aðili í leit að vernd. Það er búið að afgreiða mál hans í íslenskri stjórnsýslu og búið að fylgja þeim lögum sem þar fylgja. (Forseti hringir.) Þannig að þetta er mjög eðlilegt ákvæði til að auka skilvirknina í kerfinu okkar.