Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:06]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Við erum hér að samþykkja þá breytingu að formaður kærunefndar útlendingamála geti einn afgreitt tiltekna tegund mála. Það væri kannski sök sér ef við værum raunverulega bara að tala um endurteknar umsóknir, eins og það er orðað í ákvæðinu. Það sem meiri hlutinn er hins vegar að gera í þessu frumvarpi er að grauta saman endurteknum umsóknum og því sem kallað er beiðni um endurupptöku í dag. Það er verið að afnema rétt fólks til að fá mál sitt endurskoðað og grauta því saman við það þegar fólk fer úr landi og kemur aftur með ekkert nýtt. Formaður kærunefndar útlendingamála mun geta úrskurðað um þetta einn.

Það stendur í greinargerð að ástæðan sé sú að það séu svo margar beiðnir um endurupptöku, að við megum ekki vera að því að afgreiða þetta allt saman. Stór hluti þeirra er samþykktur og það sér meiri hlutinn sem vandamál, að fólk fái rétt sinn leiðréttan. Það þarf að koma í veg fyrir það. Ég segi nei.