Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:20]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég ætla í eitt augnablik, kannski mörgum að óvörum, að taka mannúðina og leggja hana aðeins til hliðar. Ég ætla ekkert að tala um mannúðina og réttindi þess fólks sem er verið að víkja á götuna. Mig langar að benda á hversu illa úthugsað þetta ákvæði er. Þegar við vorum í vinnunni í allsherjar- og menntamálanefnd spurðum við ráðuneytið: Hvað gerist ef fólk fer ekki? Eina svarið sem dómsmálaráðuneytið var með var: Þau eiga bara að fara. En ef þau fara ekki? Þau eiga bara að fara, þau eru komin með lokaniðurstöðu, þau eiga bara að fara. Við erum nú þegar með hóp af fólki hér á Íslandi sem er komið með lokaniðurstöðu, telur sig ekki geta farið heim eða bara hreinlega getur það ekki vegna skilríkjavandræða og annars, getur ekki farið.

Annað: Ef hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur rétt fyrir sér, þetta er kannski fóður í ræður einhverra hér síðar, þá bendir allt til þess að þjónustan aukist vegna þess að þjónusta við útlendinga í neyð er meiri en við hælisleitendur. Þá vil ég bara vekja athygli á því að það er rangt sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að þetta sé til að samræma okkar lög og framkvæmd við það sem gengur og gerist á Norðurlöndunum vegna þess að hvergi á Norðurlöndunum er fólk svipt heilbrigðisþjónustu á neinum tímapunkti, eða eins og Danirnir orðuðu það: Við viljum ekki vera með fólk búandi undir brúm hérna.