Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:35]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt. Þetta er alveg án alls vafa dapurlegasta ákvæðið sem hér á að lögfesta í þessari svörtu atkvæðagreiðslu sem fram fer hér í dag. Rauði krossinn er t.d. að benda á að þrátt fyrir undantekningar frá ákvæðinu sem VG hreykir sér af getur það harðast komið niður á fötluðu fólki, fórnarlömbum mansals, pyntinga og annars alvarlegs ofbeldis, einmitt vegna þess að Útlendingastofnun hefur skilgreint þennan hóp mjög þröngt. Rauði krossinn er einnig að segja að þessir einstaklingar séu berskjaldaðri fyrir hvers kyns misneytingu, ofbeldi, mansali; heimilislausu fólki myndi fjölga, örbirgð og neyð aukast. Eins og bent hefur verið á er líka verið að velta vanda yfir á sveitarfélögin en við eigum að hrósa happi yfir því að kostnaðinum eigi svo aftur að velta yfir á ríkið. Við erum ekki hér að velta því fyrir okkur hver mannúð ríkisins eigi að vera gagnvart þessum hópi heldur erum við einfaldlega að færa til fjármuni út og suður á milli kerfa í þeirri viðleitni að herða að réttindum fólks á flótta. Ég segi nei.