Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:40]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Hingað kemur hv. þm. Vinstri grænna, Jódís Skúladóttir, og stærir sig af því að Vinstri græn hafi komið í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn myndi henda börnum á götuna. Vel gert. Inni í því eru hins vegar t.d. ekki konur sem eru einar á ferð. Vitið þið að konum einum á ferð er almennt synjað um hæli hér á landi, fórnarlömbum mansals? Hvað gerist þegar þær missa réttinn til húsaskjóls, til heilbrigðisþjónustu, til allrar aðstoðar? Það er talað um að 90% mansalsfórnarlamba séu í hættu á að fara aftur í mansal. Hvað gerirðu ef þú ert í þeirri stöðu og þú átt hvergi heima? Þetta eru Vinstri græn að samþykkja. Þá vil ég bara benda á hversu tvísaga ríkisstjórnin er varðandi afleiðingarnar af þessu vegna þess að það er talað um að fólk eigi bara að fara, það þurfi að svipta það þjónustu svo það drulli sér í burtu, en svo kemur hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra og segir: Nei, þetta er allt í lagi, þau fara bara á sveitarfélögin. Þar er þjónustan meiri en hælisleitendur fá. Hv. þingmenn. Þetta er fullkomlega óúthugsað. Þetta er ekki í samræmi við eitt eða neitt á Norðurlöndunum eða neins staðar annars staðar. Þetta er bara eitthvað upp úr einhverjum einhvers staðar af því að það þarf einhvern veginn að refsa þessu fólki fyrir að koma sér ekki í burtu. Þetta er algerlega óúthugsað, fullkomlega ómannúðlegt, galið ákvæði. Ég segi nei.