Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:02]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Þetta ákvæði, 8. gr. frumvarpsins — ég veit ekki hvar ég á að byrja, hvar á að bera niður í vitleysunni. Annars vegar er verið að tala um það sem hefur verið bent á, að veita Útlendingastofnun heimild til að vísa fólki — ég endurtek: vísa fólki þangað sem stofnuninni finnst sanngjarnt og eðlilegt að fólk dveljist. Það er óháð því hvort fólk hafi heimild til komu eða dvalar. Íslensk stjórnvöld geta ekki flutt fólk þangað, þannig að við verðum bara að krossleggja fingur og treysta því að þau komi sér í burtu sjálf. Þetta er nefnilega svo áhugavert vegna þess að ég hélt við værum einmitt að reyna að leysa það vandamál að það væri búið að taka óframkvæmanlegar ákvarðanir í málum fólks, synja fólki um vernd án þess að við gætum flutt það. Það er vandamál sem allir eru sammála um að þarf að leysa. Þarna er verið að auka á það vandamál. Og síðan í c-lið þessarar greinar er, eins og hefur verið bent á, beinlínis verið að brjóta á börnum þar sem verið er að leggja það til að þau missi rétt til dvalar hérna, jafnvel eftir margra ára dvöl, vegna einhvers sem foreldrar þeirra gerðu eða ættingjar eða jafnvel lögmaðurinn þeirra gerði á einhverjum tímapunkti einhvern tímann. Ég beini þessu sérstaklega til hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur; það kýrskýrt að þarna er um mannréttindabrot að ræða. Það er enginn vafi um það þótt hv. þingmaður sé ósammála því. Ég segi já við þessari breytingartillögu.