Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:23]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Því er haldið fram að það sé ætlunin með þessu ákvæði að skýra ákvæði laganna um að tafir geti verið á ábyrgð umsækjenda. Þetta er ekki rétt. Kærunefnd útlendingamála er búinn að skýra það ákvæði. Hún er búin að skýra það með þessum hætti, með leyfi forseta:

„… þótt 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst sé að hægt hefði verið að flytja viðkomandi áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.“

Það er verið að skýra þetta ákvæði. Það er verið að breyta því vegna þess að Útlendingastofnun er ósátt við skýringu kærunefndar útlendingamála, vegna þess að kærunefnd útlendingamála er búin að komast að þeirri niðurstöðu að ef tafirnar eru óverulegar og það hefði samt verið hægt að flytja viðkomandi innan 12 mánaða þá séu tafirnar á ábyrgð stjórnvalda. Við þetta er meiri hlutinn hér á þingi ekki sáttur. Það er ekki verið að skýra ákvæðið. Það er verið að breyta því. Ég segi nei.