Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:51]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Hér er öllu snúið á hvolf. Ég segi já við þessu ákvæði vegna þess að það er ívilnandi fyrir fólk sem kann að vera í þessari stöðu. Dæmið hér um einstæðu móðurina sem kemur til landsins, er boðið til landsins undir kvótaflóttamannaheitinu og eiginmaðurinn birtist, þau ánægjulegu tíðindi verða að viðkomandi finnst í flóttamannabúðum einhvers staðar, með þessu ákvæði er honum núna tryggð sama vernd og eiginkonunni og börnunum, þ.e. fulla vernd hér á Íslandi, í stað þess að áður hefði viðkomandi mögulega getað sótt um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Þetta er því ívilnandi ákvæði. Þau dæmi sem eru tekin hér af samkynhneigðum — þetta mun ekki breyta því að enn þá getur fólk óskað eftir dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. En þetta ákvæði sem við ræðum hér er ívilnandi fyrir þá sem heyra undir það. Þess vegna segi ég já.