Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:04]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég er glöð að sjá hversu mikil samstaða er um þetta ákvæði hér í þingsal en þetta er sem sagt bráðabirgðaákvæði sem meiri hlutinn er að leggja til. Þetta er ákvæði sem er ætlað að ná utan um mjög afmarkaðan hóp fólks sem hefur dvalið hér á landi í töluverðan tíma og ekki fengið vernd en var ekki hægt að vísa frá vegna Covid-aðstæðna. Þarna er verið að ná utan um börn og fjölskyldur þeirra sem eru í þeirri stöðu að hafa verið hér á landi í töluverðan tíma og með þessu ákvæði hyggjumst við veita þeim dvalar- og atvinnuleyfi og ákveðið rými til að ná utan um hvort þau fái vinnu hér á landi og geti þá dvalið hér.

Aftur á móti er ljóst að við munum við 3. umr. koma með breytingu á tímafrestinum, dagsetningunni sem þarna er tilgreind, þar sem það hefur tekið meiri tíma en ætlað var að ná þessum áfanga sem við stöndum frammi fyrir hér í dag.