Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

umferðarlög.

589. mál
[16:50]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. innviðaráðherra fyrir að gera málinu prýðisgóð skil. Mig langar að víkja að nokkrum hlutum hvað varðar þetta frumvarp. Fyrst er það hvort farið hafi fram mat á hagsmunum barna varðandi takmarkanir á notkun smáfarartækja þar sem í mörgum tilfellum gæti verið erfitt fyrir börn að komast leiðar sinnar annars, einfaldlega vegna skorts á öðrum möguleikum til samgangna. Fleira sem ég var að velta fyrir mér var hver rökstuðningurinn er fyrir því að hafa önnur viðmið fyrir smáfarartæki en hesta og reiðhjól. Mér finnst að löggjöf ætti að vera sambærileg. Annað sem mig langar að hvetja til er að fundin verði leið til að hafa eftirlit með gang- og hjólastígum. Þar virðist vera ákveðinn blindur blettur hvað varðar löggæslu því mikið er um að ökutækjum sé lagt sem hindra umferð um stíga og svo mögulega önnur tæki sem ekki ættu að vera á stígunum en það virðist enginn hafa neitt eftirlit með því.

Svo langar mig að hvetja til þess að við finnum leið til að tryggja aðkomu sem flestra samtaka varðandi samgöngur, eins og hjólreiðamanna, við frekari vinnslu frumvarpsins.