Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

umferðarlög.

589. mál
[16:54]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. innviðaráðherra fyrir svarið. Þetta hangir kannski pínulítið saman því að það væri miklu frekar að leiðbeina börnunum um það hvernig hægt sé að nýta farartækin með öruggum hætti því að eins og ég kom inn á í andsvarinu áðan þá er lítið sem ekkert eftirlit með þeirri umferð sem fer fram á stígum og þessi farartæki eru gjarnan staðsett þar. Því má færa rök fyrir því að það raunverulega hangi saman og sérstaklega í ljósi þess, eins og hæstv. innviðaráðherra vísar til, að það er að finna ýmis bönn við því að leggja ökutækjum á hjólreiðastígum en undirritaður hefur alveg prófað það á eigin skinni að slík bönn halda afar lítið og eftirliti með því er svo til ekki sinnt. Það má benda á ótal myndbönd af slíku og jafnvel horfa upp á lögreglubíla keyra fram hjá og láta óátalið. Það er einmitt grunnurinn í þessu, að við setjum okkur reglur og lög sem við getum framfylgt því að ef við framfylgjum þeim ekki þá missir þetta allt saman marks. Þá er frekar betra að leiðbeina en að vera að setja reglur sem síðan verða að engu þegar því er ekki sinnt og ekki tryggt að farið sé eftir þeim. Það næst meiri árangur með því að leiðbeina, frekar en að banna eitthvað sem er ekki hægt.