154. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2024.

viðbrögð á Norðurlöndum við hælisleitendum frá Gaza.

[15:21]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Nýverið birti dómsmálaráðuneytið gagnlegar upplýsingar um stöðu hælisleitendamála hér sem drógu nú fyrst og fremst það sem við máttum vita fyrir um það stjórnleysi sem er ríkjandi á því sviði hér á landi, en þakkarvert af ráðuneytinu að birta þetta og gagnlegt. Í framhaldinu hefur þó verið dregið í efa að hæstv. ráðherra hafi farið með rétt mál í umræðu um þetta, ekki hvað síst í samanburði sínum á því hvernig brugðist er við gagnvart hælisleitendum frá Gaza-svæðinu á Norðurlöndum. Því spyr ég einfaldlega hæstv. ráðherra: Hvað er rétt í þessu? Það liggur þó fyrir að Ísland hefur tekið á móti síðustu misseri mun fleiri hælisleitendum af palestínskum uppruna eða Palestínuaröbum heldur en hin Norðurlöndin, raunar líklega fleiri einstaklingum í fyrra en hin Norðurlöndin til samans. Nágrannalönd hafa verið mjög treg til og raunar bara þvertekið fyrir að taka við hælisleitendum. Egyptar, Jórdanir og fleiri hafa sagst ekki ætla að taka við einum einasta og í þessum töluðu orðum eru Egyptar að byggja enn nýjan vegg við suðurlandamæri Gaza sem fyrir voru talin einhver hin víggirtustu í heimi.

Ég spyr því hæstv. ráðherra einnig: Hvers er að vænta af afstöðu ríkisstjórnarinnar í þessu máli og framkvæmd? Önnur lönd, í tilviki Svíþjóðar var það SÄPO, sænska öryggislögreglan eða leyniþjónustan, sem tók að sér að grennslast fyrir um það fólk sem sóttu um hæli þar, og í Þýskalandi höfðu 200 starfsmenn þýskra hjálparstofnana komist til Egyptalands en eftir að þeir voru teknir í viðtöl þar og skoðaðir þá fékk einungis helmingur þeirra að fara til Þýskalands. Hvaða ráðstafanir gera íslensk stjórnvöld til að tryggja öryggi?