154. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2024.

skaðaminnkandi úrræði fyrir fólk með fíknivanda.

[15:36]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Fyrir stuttu var læknir sviptur leyfi til þess að ávísa lyfjum til sinna sjúklinga þar sem hann hafði tekið upp á arma sína tiltekið skaðaminnkunarúrræði sem fólst í því að skrifa upp á lyf fyrir fólk með fíknivanda, ávísanir sem ekki voru taldar samræmast gildandi lögum og reglum. Verkefnastjóri skaðaminnkunar á Landspítalanum sagði ákvörðun sem þessa hafa hræðilegar afleiðingar fyrir viðkvæman hóp fólks og velti því upp hvort ákvörðunin hefði verið hugsuð til enda. Áður var það viðtekið viðhorf hér á landi og víðar að til þess að fá aðstoð við fíknivanda þyrfti fólk fyrst að hætta í neyslu. Það er svolítið eins og að segja að þú þurfir að vera hraustur til að fá heilbrigðisaðstoð. Sem betur fer bendir allt til þess að það hafi orðið viðhorfsbreyting á meðal heilbrigðisstarfsfólks hér á landi en þeirrar viðhorfsbreytingar er enn að bíða þegar kemur að löggjöf og þeim úrræðum sem tryggð eru.

Athafnir læknisins verða að sjálfsögðu raktar til þess að skortur hefur verið á skaðaminnkandi úrræðum fyrir fólk með fíknivanda hér á landi. Því er mikið ábyrgðarleysi fólgið í því að kippa úr sambandi úrræði sem eðlilega eru deildar meiningar um án þess að tryggja að eitthvað taki við fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga. Líklegar afleiðingar þess eru þær að fólk í neyð leiðist út í afbrot auk þess sem það útsetur það enn frekar fyrir misnotkun og ofbeldi. Sýnt hefur verið fram á það að refsingar fyrir vörslu neysluskammta vímuefna geta orðið til þess að fólk í neyð veigri sér við að leita lífsnauðsynlegrar aðstoðar, lendi í vítahring örbirgðar og afbrota sem eykur á vanda þess og leysir hann alls ekki.

Því spyr ég hæstv. ráðherra, sem hefur sagst vilja efla skaðaminnkandi úrræði í stað þess að samþykkja stærsta skaðaminnkunarmálið, afglæpavæðingu vörsluskammta vímuefna: Hvernig hyggst hann beita sér til að tryggja lágmarksskaðaminnkun á Íslandi?