131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[16:39]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður lauk ræðu sinni eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hér fyrr í dag, með því að segja að þessi tillaga skipti svo sem engu máli, það væri ekki verið að boða neina kollsteypu og þar fram eftir götunum.

Af hverju skyldi hv. þingmaður gera það? Vegna þess að hann gerir sér grein fyrir því að efni þessarar tillögu felur það í sér að fjölmörg fyrirtæki munu ekki hafa rekstrargrundvöll, fjölmargt fólk í fiskvinnslu, verkafólk í fiskvinnslu, mun missa atvinnu sína og þetta mun hafa í för með sér á sumum stöðum mikla erfiðleika í byggðarlögunum vegna þess að fólk hefði ekki að neinni vinnu að hverfa. Þessi tillaga miðar beint í hjartastað þeirra fyrirtækja sem halda uppi byggð á sumum stöðum og það verður sviðin jörð eftir ef þessi tillaga verður framkvæmd og nær fram að ganga.