131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[18:15]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langaði að leggja nokkur orð í belg hvað varðar umræðuna um sölu Símans. Eins og ég kom að, og fleiri hv. þingmenn í umræðunni áðan, þykir mér miður að fulltrúar og forustumenn ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna skuli ekki taka þátt í umræðunni því að hér er um mikið stórmál að ræða. Reyndar er það svo að þau lög sem gilda um sölu ríkisins á hlutafé í Landssímanum eru frá árinu 2001 þannig að umræðan á þinginu hefur ekki verið mikil um þessa aðferðafræði frá því að lögin voru samþykkt en þar heimilaði Alþingi að selja allt hlutafé Símans.

Frá þeim tíma hefur margt breyst, tækninni hefur fleygt fram og í dag er fullyrt að þeir tæknilegu örðugleikar sem menn báru fyrir sig á sínum tíma um að aðskilja grunnnetið séu ekki lengur til staðar. Forsendur og allt umhverfi hvað þetta varðar er breytt og því full ástæða til að ræða þessa hluti og mikilvægt að skiptast á skoðunum um málið því þetta er alveg gríðarlega stórt mál. Það skiptir miklu fyrir allan almenning í landinu og það skiptir miklu máli fyrir lífsgæði fólks hér á landi.

Ég held að enginn velkist í vafa um að fyrir lífsgæði fólks, einkanlega á landsbyggðinni, mun skipta miklu máli hvernig þessu máli vindur fram. Ef málið fer í þann farveg að fyrirtækið verður selt í einu lagi og þau sjónarmið verða uppi í fyrirtækinu að litlar sem engar fjárfestingar verði á þeim svæðum þar sem fólk er færra þá er alveg ljóst að lífsgæði þess fólks, umhverfi þess fólks mun versna borið saman við lífskjör annars staðar. Fjarskipti eru orðin svo stór þáttur í öllu daglegu lífi fólks og við sjáum það m.a. bara á hinu háa Alþingi að hér er varla nokkur þingmaður sem ekki er með farsímann á sér hvert sem hann fer. Þetta skiptir því allan almenning í landinu miklu máli.

Þess vegna finnst mér nauðsynlegt, virðulegi forseti, að svara þeim grundvallarspurningum sem mér finnst ekki hafa fengist svör við frá ríkisstjórnarmeirihlutanum eða fulltrúum hans: Hvert er meginmarkmiðið með sölu Símans? Er það fyrst og fremst að styrkja ríkissjóð? Er það fyrst og fremst að kalla eftir peningum í ríkissjóð svo hægt sé að nota þá fjármuni í eitthvað annað? Eða er verið að horfa til þess að þróun á fjarskiptamarkaði taki stórstígum framförum og það sé líklegra að það gerist undir forustu einkaaðila en ríkisins? Þetta finnast mér vera grundvallarspurningar sem nauðsynlegt er að takast á við.

Það verður vitaskuld fátt um svör ef enginn úr stjórnarliðinu tekur þátt í umræðunni og ekki síst sökum þess að Alþingi hefur í reynd enga aðkomu að málinu lengur nema í því að reyna að kalla eftir umræðu. Það er búið að víkja frá eða hafna beiðni um umræðu utan dagskrár um mál af þessum toga vegna þess að þetta mál er á dagskrá en það skilar vissulega ekki hinu sama ef við fáum ekki þessa umræðu upp í þessu öllu saman.

Virðulegi forseti. Þó að ég sé oft og tíðum á öndverðum meiði við hv. þm. Jón Bjarnason þá benti hann á ákveðin atriði sem vissulega skipta máli í þessari umræðu. Hv. þingmaður benti á að uppbygging alls dreifikerfisins var á sínum tíma að hluta til einhvers konar þjóðarátak. Það er þannig að sá sem hefur aðgang eða hefur umráð og yfirráð yfir grunnneti Símans hefur aðgang að nánast öllum heimilum í landinu. Það eru gríðarleg verðmæti að hafa aðgang að öllum heimilum landsins og í þeirri miklu og öru þróun sem á sér stað á fjarskiptamarkaði og á sér stað í tækninni hvað þetta varðar er ég sannfærður um að í því felast alveg ofboðsleg verðmæti.

Sú mikla þróun sem einnig hefur átt sér stað hvað varðar að þróa koparinn sem liggur inn á hvert einasta heimili, nýta hann betur með bættum endabúnaði, gerir það að verkum að hægt er að senda miklu meira yfir þennan kopar, miklu meira af upplýsingum og miklu meira en menn gerðu ráð fyrir á sínum tíma þegar þessi umræða fór fram árin 2000 og 2001. Svo ör er þessi þróun.

Þess vegna verð ég að segja það, virðulegi forseti, að við þurfum að taka þessa umræðu upp á nýjan leik. Við verðum að viðurkenna að þó að við á einhverjum tíma höfum uppi tiltekna skoðun og teljum hana rétta, kann tíminn að breyta svo miklu að við verðum að vera tilbúin að endurskoða okkur. Ég er sannfærður um að þróun á samskiptamarkaði, og væntanlega um leið þróun í því að skapa almenningi í landinu lífsgæði, yrði betri og örari ef við skildum að grunnnetið og samkeppnisreksturinn. Ég held einnig, eins og hér hefur verið dregið fram með mjög skýrum hætti í þessari umræðu, að við værum þá ekki að ráðast í „óþarfar“ fjárfestingar. Svíar hafa til að mynda lent í því að fjárfesta í fleiri grunnnetum en þeir kannski ella þyrftu og það má segja sem svo að með því móti værum við ekki að nýta fjármunina sem skyldi. Það er því mikilvægt að þingið taki upplýsta og stefnumótandi ákvörðun um hvernig það vilji sjá þessa þróun.

Ég er alveg sannfærður um það og ætla svo sem ekkert að tala um það hér og nú hvernig Síminn hefur hegðað sér á samkeppnismarkaði — ég efast um að nokkurt fyrirtæki eigi fleiri úrskurði hjá samkeppnisyfirvöldum en Síminn og ég ætla ekki að fara að draga það fram hér — en ég vil líka leyfa mér að fullyrða að einkavædd einokun er ekki betri en ríkisrekin einokun. (JBjarn: Miklu, miklu verri, ekki líkja því saman.) Og miklu verri kallar hv. þm. Jón Bjarnason fram í, sem flutti hér ágæta tölu um eitt fyrirtæki, eitt land og einn flokk í ræðu sinni. En ég er alveg sannfærður um að það mun ekki færa okkur fram þau skref sem við viljum sjá. Þess vegna sakna ég þess mjög í þessari umræðu, þó að ég viðurkenni fúslega að mér finnist ekki alltaf ríkisstjórnarflokkarnir leggja mikið inn í umræðuna, að heyra ekki þau sjónarmið sem þeir standa fyrir í þessu máli, einkanlega vegna þess að á Íslandi gilda engin lög um það hvernig selja eigi ríkisfyrirtæki eða ríkiseignir. Þar af leiðandi hefur Alþingi mjög takmarkaða (Forseti hringir.) möguleika á því að koma að þessu máli eins og staðan er nú, virðulegi forseti.