131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[18:45]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég átti við þau mál sem hefur verið kvartað yfir til Samkeppnisstofnunar. Þar er málshraðinn það hægur að það tekur að meðaltali 16 mánuði að fá afgreiðslu mála.

Ég held að þeir í Sjálfstæðisflokknum, og ég vona að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sé þeirra á meðal, ættu að hugsa sinn gang varðandi það að þetta taki svona langan tíma. Á meðan eftirlitsstofnanir taka ekki á þeim sem eru markaðsráðandi, hvaða samkeppni ætla menn þá að færa inn? Hafa menn engar áhyggjur af því að vera að selja þessa einokunaraðstöðu til einkaaðila þegar menn hafa ekki eflt Samkeppnisstofnun meira en svo að hún ræður ekki einu sinni við opinbert fyrirtæki sem er að langstærstum hluta í eigu ríkisins?