135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[14:26]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar verið er að vinna aðalskipulag og deiliskipulag er mjög mikilvægt að mínu mati, og ég heyri að hæstv. ráðherra hugsar það á svipuðum nótum og ég, að auka samráð við íbúa og endurspeglast það í frumvarpinu.

Upp á síðkastið hefur maður séð — og ég get nefnt sem dæmi mjög heitt skipulagsmál á Seltjarnarnesi þar sem verktaka er falið að skipuleggja stórt svæði. Hann skipuleggur það eins og honum finnst hann lesa út úr aðalskipulaginu sem er allt annað en íbúarnir lesa. Það þarf að taka á þessu.

Hitt málið sem ég held að sé kannski enn þá þyngra í vinnslu í þinginu er um skipulagsþátt sveitarfélaga og svo landsskipulagið. Maður veltir fyrir sér hvað landsskipulagið eigi að ná langt niður, hversu nákvæmt það eigi að vera. Það er auðvitað alveg rétt með heildaráætlanir, það er alveg upplagt að þær séu inni í landsskipulagi. En maður veltir fyrir sér eins og í máli sem ég hef verið að skoða um nokkurt skeið — og ég veit að hæstv. ráðherra er að skoða líka — varðandi samgöngumál á hálendinu. Varðar þetta hinar stærri línur sem fara inn í landsskipulagið eða munum við fara ofan í vegi og slóða? Mótorhjólamenn hafa verið að velta því mikið fyrir sér. Hvað fer þetta langt niður? Hvenær kemur að því að sveitarfélögin þurfa að grípa inn í og telja að þetta sé komið inn á þeirra valdsvið? Ég held að mjög mikilvægt sé að umhverfisnefnd fari vel yfir málið. Ég er þó sammála í megindráttum því sem segir í frumvarpinu, að þörf er á landsskipulagi. Það er bara spurning um hvað það á að ná langt inn í einstök smáatriði. Ég held að frumvarpið sé mjög til bóta, virðulegi forseti.