135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[14:46]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til skipulagslaga sem lagt hefur verið fram á Alþingi og ég vil byrja á því að þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir framlögn þessa máls. Eins og fram hefur komið í umræðunni hefur þetta átt langan aðdraganda og mikil undirbúningsvinna hefur farið fram allt frá árinu 2002, hér er verk sem hefur verið vandað til.

Það sem ég vil sérstaklega þakka hæstv. ráðherra fyrir eru lokaorð hennar varðandi vinnutilhögun þessa verkefnis, sem er gríðarlega mikið, þetta er víðfeðmur og stór lagabálkur sem við ætlum að standi til langrar framtíðar. Það kom sérstaklega fram hjá ráðherra að hún væri tilbúin að fara eftir öllum þeim góðu ráðum sem hv. umhverfisnefnd kynni að koma fram með sem mættu verða til þess að bæta þessa lagasetningu. Mér finnst það vera kostur fyrir okkur sem eigum eftir að vinna með málið að það sé lagt fram með þeim huga að það verði farið yfir athugasemdir okkar og tekið tillit til þeirra. Við kunnum svo að verða sammála um að einhverjar af þeim verði teknar inn í þetta verk.

Ég vil líka leggja áherslu á það eins og nú þegar hefur komið fram í umræðunni að umhverfisnefnd þarf að fá góðan tíma og gott næði til þess að fara yfir þetta frumvarp en ég legg samt sem áður áherslu á að það verði í samfellu þannig að það verði ekki tekin einhver törn í málinu og svo liggi það niðri og síðan þurfi að dusta rykið af gömlum gögnum heldur verði það unnið í samfellu og þess vegna sumartíminn notaður sérstaklega í þetta mál ef þurfa þykir.

Auðvitað kemur margt jákvætt fram í frumvarpinu og við þurfum að skýra enn frekar í lagasetningunni þau atriði sem okkur finnst vera til bóta. Síðan eru ákveðnir þættir, bæði varðandi skipulagslögin og mannvirkjalögin, lög til brunavarna sem við þurfum að ræða í svolítilli samfellu. Þó að við séum að ræða þetta fyrsta frumvarp hæstv. ráðherra núna eru hin frumvörpin þó nokkuð tengd og við munum ræða þau síðar í dag.

Ég vil samt fara örfáum orðum um það sem gert er ráð fyrir í lagasetningu þessara þriggja frumvarpa sem er að hér verði til Skipulagsstofnun annars vegar og hins vegar Byggingarstofnun með samruna Brunamálastofnunar og þarna verði tiltekin verkefni færð á milli. Það er atriði sem við þurfum að fara vel yfir í nefndinni hvort ekki sé hyggilegra að hafa þetta eina ríkisstofnun, það séu faglegir þættir sem hreinlega geri það að verkum að það verði skilvirkari vinnubrögð. Þau atriði sem við þurfum að ná fram með þessari lagasetningu eru skilvirkni, einföldun og það eru ákveðin gæði. Þetta er verkefni sem við þurfum að hafa að leiðarljósi við þessa vinnu og þá hygg ég að við þurfum að skoða einmitt þetta. Þetta er ekki nema kannski 40–50 manna stofnun, ef sameiginleg stofnun yrði, og það er ekki í raun stór stofnun, hún ætti að vera hagkvæmari í rekstri hvað varðar bókhald og alla umsýslu og umgerð á einum stað þannig að þetta er atriði sem ég vil að við skoðum virkilega vel.

Það eru fleiri atriði sem mig langar að nefna hér eins og reyndar hefur verið gert fyrr í umræðunni varðandi landsskipulagsáætlanirnar, sem eru nýmæli í þessum lögum. Við þurfum að fara nákvæmlega yfir það hvaða rétt þær hafa gagnvart sveitarfélögum og hvaða rétt gagnvart öðrum skipulagsáætlunum með aðkomu sveitarfélaga. Það hefur verið rætt hér um miðhálendið og að sú nefnd sem hefur unnið að skipulagsmálum miðhálendisins verði lögð niður. Þá þarf kannski aðeins að fara yfir ýmsa þætti sem varða þau sveitarfélög sem eiga land á miðhálendinu, t.d. þætti sem snúa að landnotum, þá á ég við beitarrétt, umferð búfjár o.s.frv. Síðan þarf það náttúrlega að fingra saman við samgönguáætlun, byggðaáætlun, sem vissulega er skipulagsáætlun í sjálfu sér, og náttúruverndaráætlanirnar. Þarna þurfum við að ná ákveðinni samfellu og samhengi þannig að þetta geti runnið saman og að við náum sátt um þessi mál.

Það hefur komið fram hér fyrr að þetta verk hófst 2002 og það hefur verið leitað umsagnar fjölmargra aðila og að sjálfsögðu sveitarfélaganna en samt sem áður — og þess vegna þurfum við einmitt að leggja mikla vinnu í það — eru ákveðnar óánægjuraddir gagnvart þessu og því er ég að ræða þessa þrjá lagabálka svolítið saman, það gefur okkur enn frekari ástæðu til þess að gefa þessu rúman og góðan tíma.

Það hafa komið fram ábendingar sem ég get ekki haft skoðun á hér á þessari stundu sem varða það hvort þessi lög standist lög eins og EES-samninga. Við þurfum að sjálfsögðu að skoða það vel og fara yfir og hafa slík mál á hreinu. Það er eðlilegt eins og við aðra lagasetningu á Alþingi að hún standist alþjóðleg lög, það segir sig sjálft.

Bara til að nefna örfá atriði var lagt fram frumvarp um frístundabyggð á Alþingi í gær og í því fólst að gerður yrði ákveðinn lagarammi um þá landnotkun. Ég ætla ekki að fara út í það frumvarp í sjálfu sér en það er afskaplega tengt þessum málum og í 7. lið 2. gr. skipulagslaganna er einmitt farið inn á frístundabyggð og ég hygg að hv. umhverfisnefnd ætti að fá það frumvarp til umsagnar og fara yfir það í samhengi við þau lög sem við erum hér að vinna þannig að við náum örugglega samfellu þar. Þar kunna að vera einhver atriði sem við vildum kannski hafa áhrif á hvað það varðar.

48. gr. frumvarpsins er um skiptingu landa og lóða, sem heyrir í raun líka til þessarar frístundabyggðar, og þar þarf aðeins að íhuga betur til hvers það land er nýtt. Ef um það er að ræða að skipta bújörðum, sem er algengt, að það er verið að búa til smábýli og annað þess háttar, þá þarf að skoða það. Það má a.m.k. ætla að það fylgi öðrum lögmálum en þegar er verið að taka land gjörsamlega úr landbúnaðarnotkun og í frístundabyggð og allt önnur not en landbúnaðarnot.

Frú forseti. Ég hef nú yfir þau atriði sem mér finnst að við þurfum að skoða hvað þetta frumvarp varðar. Ég lít svo á að við framlagningu þess af hæstv. umhverfisráðherra séum við að stíga nýtt skref varðandi lagasetningu um skipulagsmál og ég horfi björtum augum til framtíðar með að fá tækifæri til að vinna að framgangi þessa frumvarps.