135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[16:41]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er almennt þeirrar skoðunar að landsskipulagið eigi að vera stefnumótun hins opinbera og því má ekki gleyma að skipulagsáætlanir eins og aðalskipulag sveitarfélags eru háðar staðfestingu ráðherra, þannig að ríkisvaldið hefur aðkomu að þeim málum. Ef ráðuneytið eða ráðherra væri þeirrar skoðunar að aðalskipulagsáætlun sveitarfélags, eða svæðisskipulag ef svo ber undir, fari í bága við landsskipulagsstefnuna þannig að það sé ósamrýmanlegt og gangi ekki upp, þá getur ráðherra væntanlega synjað skipulaginu staðfestingar.

Ég tel að ríkisvaldið hafi prýðilega aðkomu að þessum málum og í raun tæki til þess að beita, a.m.k. getur það haldið því fram og fært fyrir því rök væntanlega að skipulagsáætlunin sé í andstöðu við landsskipulagsstefnu og þar af leiðandi þurfi að gera einhverjar breytingar á því. Ég held að það væri mjög slæmt ef við setjum ákvæðið inn þannig að landsskipulagsáætlunin sé rétthæst og síðan verði að fara hér í þá vinnu að breyta aðalskipulagi eða svæðis- og aðalskipulagi einstakra sveitarfélaga til þess að þau elti einhvern veginn uppi landsskipulagsáætlun eins og hún kann að vera á hverjum tíma. Ég vek athygli á að við getum verið með margar áætlanir, bæði svæðisbundnar eins og miðhálendið sem hér er talað um, þetta geta líka verið geiraáætlanir, samgönguáætlun, skógræktaráætlun, orkunýtingaráætlun o.s.frv. Þetta getur því orðið mjög flókið mál að mínum dómi og ég er ekki viss um að það sé til bóta að fara þá leið.

Hins vegar er ég reiðubúinn til þess að fara í umræðu um málið á vettvangi umhverfisnefndar og hlusta á öll þau sjónarmið sem þar koma fram og hugsanlega skipta um skoðun ef ég sannfærist.