135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[17:22]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er makalaust með þennan ágæta hv. 10. þm. Norðvesturkjördæmis hvernig honum tekst alltaf að vera ósammála flestum á þinginu og setja mál sitt fram með þeim hætti.

Við erum að fara yfir frumvarp sem á eftir að fá mikla og væntanlega góða umræðu í umhverfisnefnd. Ég fór yfir og rakti það sem ég taldi að betur mætti fara. Ég tel, hæstv. forseti, að það sé hlutverk mitt sem alþingismanns að skoða hvað ég tel í lagi og það sem ég tel að geti betur farið. Til þess held ég að ég hafi verið hingað kjörin en ekki til að segja já og amen við einu og öllu sem lagt er fram né heldur að vera andvíg öllu.

Ég get fullyrt, hæstv. forseti, að þetta frumvarp mun fá góða umfjöllun í umhverfisnefnd. Þótt ég eigi ekki sæti í nefndinni mun ég beita mér ásamt félögum mínum í Sjálfstæðisflokknum til að lagfæra ýmislegt sem við teljum að í því megi færa til bóta þannig að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson geti verið sáttari þegar frumvarpið kemur til 2. umr.

Mér finnst þó skemmtilegra að menn hafi rétt eftir mér. Í þessu máli er hvergi minnst á byggingarfulltrúa heldur skipulagsfulltrúa. Ég gerði athugasemdir við það að litlar kröfur væru gerðar um menntun forstjórans en miklar kröfur um skipulagsfulltrúann. En við getum rætt byggingarfulltrúann í næsta frumvarpi, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson.