135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

mannvirki.

375. mál
[18:31]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um mannvirki sem hæstv. umhverfisráðherra hefur lagt fram. Eins og fram hefur komið í umræðunni eru þau frumvörp sem hér eru til umræðu nátengd.

Mig langar að gera að umtalsefni nokkrar greinar þessa frumvarps. Í fyrsta lagi 7. gr., um byggingarfulltrúa. Byggingarfulltrúi er ráðinn af sveitarstjórn en þó að hún beri ábyrgð á því að ráða hann hefur hún, eins og ég get lesið út úr þessari grein, afar litla íhlutun í störf hans almennt. Þá er komið að því hver sé réttarstaða byggingarfulltrúans sem starfsmanns sveitarfélagsins án þess að sveitarfélagið hafi yfir höfuð íhlutunarrétt í störf hans á einn eða annan hátt. Mér fannst hæstv. umhverfisráðherra svara ágætlega spurningum um áfrýjunarleiðir sem hugsanlega þarf að skoða heima í héraði vegna þess að samkvæmt þessu og samkvæmt stöðu byggingarfulltrúa eru allar ákvarðanir hans stjórnvaldsákvarðanir og ekki bundnar samþykki eða ákvörðun sveitarstjórna. Þetta er bara stjórnvaldsákvörðun og samkvæmt henni er ákvörðun hans ein og sér, miðað við þetta, beint áfrýjunarferli til úrskurðarnefndarinnar margfrægu og því þarf með einhverjum hætti að hafa þessar áfrýjunarleiðir klárari heima í héraði.

Ég tel einnig að bæði í 9. gr. og 10. gr. þurfi að skerpa dálítið betur á hlutverki hvors um sig, Byggingarstofnunar annars vegar og byggingarfulltrúa hins vegar, um það hvor er að gefa út leyfi og fyrir hvað, því að þar stendur „byggingarfulltrúi eða eftir atvikum Byggingarstofnun“. Þetta er orðað með þessum hætti í báðum greinunum og ég tel að það þurfi að vera skýrara hvað átt er við um hvora stofnun fyrir sig.

Ég ætla einnig að vekja athygli á 16. gr. þar sem talað er um framkvæmd eftirlits með mannvirkjum. Ég verð reyndar, hæstv. forseti, að fá að koma því að að orðið „mannvirki“ er fyrir mér eiginlega hálfgerður tungubrjótur vegna þess að mér finnst bara vont að líta á venjulegt hús heima í minni sveit sem mannvirki — ég hefði kannski kosið að þetta væru mannvirkja- og byggingarlög — og þó að vissulega megi heimfæra orðið mannvirki á hvað sem er, þá er það svolítill tungubrjótur.

Í 16. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Eftirlit með mannvirkjum skal framkvæmt í samræmi við ákvæði skoðunarhandbóka sem Byggingarstofnun býr til á grundvelli ákvæða laga þessara og reglugerða …“

Hins vegar er nú komið upp ágreiningsmál um túlkun. Í skoðunarhandbókinni er Byggingarstofnun úrskurðaraðili og jafnframt stendur að álit Byggingarstofnunar og eftir atvikum ráðherra sé bindandi fyrir aðila máls. Hugsanlega þyrfti að skoða þetta frekar og beini ég þá tilmælum mínum til hv. formanns umhverfisnefndar að skoða það.

Síðan tel ég að gera megi athugasemd við 17. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Byggingarstofnun getur tekið til athugunar að eigin frumkvæði eða samkvæmt ábendingu hvort afgreiðsla byggingarfulltrúa hafi farið í bága við lög.“

Þarna hefur Byggingarstofnun, sem er stjórnsýslustig ríkisins, íhlutun í annað stjórnsýslustig, sem er sveitarfélagið, og getur samkvæmt 17. gr. eins og greint er frá í greinargerðinni, farið hér inn og án andmælaréttar af hálfu byggingarfulltrúa eða sveitarstjórnar. Ég bendi á þessa grein og bið um að kannað sé hvort það standist.

Ég vil jafnframt þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir þetta frumvarp. Fyrir mig er það að mörgu leyti allt of tæknilegt, ég hef hvorki þekkingu né færni til að taka á kannski flestöllum þáttum málsins. Hins vegar er ljóst að þetta er sett fram til að efla faglegt eftirlit og það er af hinu góða og því ber að fagna. Ég geri hins vegar athugasemdir við þær greinar sem ég hef nefnt hér og vísa því til hv. umhverfisnefndar að skoða þær frekar.