135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

lagning raflína í jörð.

315. mál
[19:03]
Hlusta

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Það er langt liðið á daginn svo að ég ætla ekki að hafa langt mál um þá tillögu sem hér liggur fyrir. Hún lætur nú lítið yfir sér en varðar nokkuð stórt mál.

Þessa þingsályktunartillögu, um lagningu raflína í jörð, flyt ég ásamt öllum þingmönnum í umhverfisnefnd, þingmönnum allra flokka og áheyrnarfulltrúa einnig. Það eru hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins í umhverfisnefnd, þau Guðfinna S. Bjarnadóttir, Kjartan Ólafsson, Illugi Gunnarsson og Ólöf Nordal, þingmennirnir Árni Þór Sigurðsson og Kolbrún Halldórsdóttir frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, hv. þm. Framsóknarflokksins Höskuldur Þórhallsson, og Kristinn H. Gunnarsson sem er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og situr fyrir Frjálslynda flokkinn, sem kunnugt er, auk mín og Katrínar Júlíusdóttur frá Samfylkingu og formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnars Svavarssonar, sem er sérlegur áhugamaður um efnið.

Eins og menn vita hafa á undanförnum árum verið vaxandi deilur um ýmsar stórframkvæmdir og þá ekki síst um virkjunarframkvæmdir víðs vegar um landið. Stór hluti þeirra deilna snýst um neikvæð umhverfisáhrif og hluti þeirra hefur sannarlega verið línulagningar og ekki síst þau sjónrænu áhrif sem þær hafa haft víða á ósnortin víðerni. Þær hafa auðvitað líka haft áhrif á landeignir manna, landvernd og þróun byggðar í einstökum sveitarfélögum og þar fram eftir götunum.

Sú tillaga sem hér er flutt miðar að því að sett verði niður nefnd á vegum þriggja ráðuneyta, iðnaðar-, umhverfis- og fjármálaráðuneytis, með fulltrúum frá umhverfisnefnd Alþingis og iðnaðarnefnd, með fulltrúum frá Samorku og náttúruverndarsamtökum og frá Sambandi ísl. sveitarfélaga til að gera um það langtímaáætlun hvernig koma megi þeim raflínum, sem við nú höfum í lofti, í jörð. Eins verður rætt hvaða kröfur eigi að gera um lagningu nýrra lína vegna þess að fyrir liggur að nýjar línu munu fyrst og fremst rísa í tengslum við iðnaðar- eða atvinnustarfsemi. Þær munu ekki vera settar upp til að þjóna heimilunum. Við höfum þegar reist allar þær línur sem við þurfum fyrir hið almenna atvinnulíf og heimilin í landinu. Það er vaxandi krafa um að ný starfsemi þurfi að velja bestu umhverfislausnir sem völ er á. Eðlilegt er að við skoðum með hvaða hætti sé hægt að standa bæði að löggjöfinni og gjaldtökunni þannig að ný verkefni sem kalla á nýjar línulagnir þurfi einfaldlega að kosta bestu umhverfislausnir sem eru auðvitað lagning raflína í jörð í þeim tilfellum sem nýjar línur eru lagðar. Það verður þá líka hvati til þess að orkan verði nýtt á hverjum tíma sem næst upptökum sínum. Það er jafnframt í samræmi við kröfur sem heimamenn víða hafa verið að gera í vaxandi mæli, þ.e. kröfur um að orkan sé nýtt heima í héraði en ekki flutt með miklum línulögnum á milli héraða og jafnvel heilu landshlutanna.

Þá liggur það fyrir að við þurfum á næstu árum að fara í verulegar endurnýjanir á þeim línum sem fyrir eru. Þær loftlínur sem við höfum í rafmagni spanna nú um 3.000 kílómetra og skiptast aðallega í þrjá flokka: Við erum með lægstu spennuna, 33 og 66 kílóvolt, úti í hinum dreifðu byggðum sem sannarlega er mikill ávinningur af að setja í jörð, m.a. vegna þess að þannig losna menn við vandamál sem fylgja ísingum og því að línur leggist niður og brotni og bili í illviðrum sem gerist annað veifið á Íslandi. Það er sannarlega hagkvæmt að leggja þessar línur í jörð við þær aðstæður sem við höfum í dag. Það er iðulega gert við endurnýjun en þessar línur spanna um 1.000 kílómetra af þessum 3.000.

Síðan erum við með 132 kílóvolta spennu sem eru rúmlega 1.000 km af línum í landinu. Lengi vel var talið mun dýrara að leggja það kerfi í jörð en vera með það í lofti en reynslan sýnir annað. Menn hafa reynslu af því að leggja bæði í lofti og jörðu eins og frá Nesjavöllum fyrir tíu árum síðan þegar við í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur réðumst í að reisa raforkuverið á Nesjavöllum. Þá lögðu menn helming línunnar til Reykjavíkur í jörðu en hinn helminginn í lofti. Fyrir tíu árum kom í ljós að kostnaðarmunur á þessum tveimur leiðum var ekki nema rétt liðlega 40% sem var miklu minna en menn héldu áður en farið var í verkefnið. Með hverju árinu sem líður minnkar kostnaðarmunurinn á þessum tveimur leiðum. Framleiðsla á jarðstrengjum hefur aukist og verð lækkað og eftir því sem tæknin þróast fáum við betri lausnir þar rétt eins og áður varðandi símann. Menn þekkja þá sögu að fyrir 100 árum síðan riðu bændur til Reykjavíkur til þess að mótmæla línulögnum með síma um sveitir landsins og vildu fá þráðlaus fjarskipti — íslenskir bændur framsýnir með eindæmum — en lagt var í loftlínum um landið allt eins og menn þekkja. Það var auðvitað ákveðinn vitnisburður um framfarir og framþróun en nú, 100 árum síðar, er allt saman komið í jörð og fjarskiptalagnir í lofti heyra meira og minna sögunni til.

Við flutningsmenn gerum ráð fyrir að nær öllum raflínum verði komið fyrir með þeim hætti undir miðja þessa öld. Það er verkefni sem tekur okkur klárlega áratugi og það er þannig um 750 kílómetra eða rétt liðlega fjórðung af þeim raflínum sem eru í landinu og eru á hárri spennu, 200 kílóvoltum og þar yfir. Það er enn sem komið er ekki hagkvæmt að leggja þær í jörðu en þar hefur kostnaðarmunur minnkað stórum á undanförnum árum og við hljótum að sjá fram á að með tækniþróun verði það góður kostur. Nefndinni var falið að huga að undirbúningi fyrir það m.a. með því að athuga lagnaleiðir fyrir það kerfi. Eins var henni falið að kanna hvaða áhrif það hefur á heildarhönnun kerfisins að það pólitíska stefnumið verði sett að við setjum allar raflínur í jörð nema í algerum undantekningartilfellum. Þau eru þar sem meiri umhverfisfórn felst í því að fara með línurnar í jörð en að spenna þær í loftið. Auðvitað eru til mjög sérstæðar, einstakar jarðmyndanir sem krefjast þess eða náttúra sem þarf að vernda.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta sjálfsagða framfaramál, virðulegur forseti. Ég vil greiða fyrir því að málið komist til nefndar í framhaldinu, fái þar afgreiðslu, að ríkisstjórnin geti sett af stað nefnd sem geri skipulagsáætlun um — af því að við höfum verið að ræða skipulagsáætlanir í allan dag — með hvaða hætti við komum öllum þeim raflínum, sem í lofti eru í dag, í jörð á næstu árum og áratugum.