138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:25]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. formanni fjárlaganefndar er í sjálfu sér vorkunn í þessu máli því að eflaust er rétt að hann hafi í krafti stöðu sinnar kallað eftir öllum gögnum er vörðuðu þetta mál. Það hefur þá farið fram hjá honum líka eða hann verið leyndur gögnum ekki síður en stjórnarandstaðan og það er að sjálfsögðu alvarlegt mál líka.

Í þessu er ýmislegt staðfest sem stjórnarandstaðan, og raunar nokkrir þingmenn stjórnarinnar líka, hafa reynt að halda á lofti, m.a. það sem ríkisstjórninni eða stjórnarliðum hefur sárnað hvað mest að við höfum bent á að þau vopn sem Íslendingar höfðu í þessu máli hafi ekki verið nýtt heldur hafi menn kastað þeim frá sér og stjórnin litið svo á að með því væri verið að brigsla henni um landráð. Ég veit ekki hvað á að kalla það en í þessu er alla vega staðfest að menn beinlínis köstuðu frá sér vopnum sem þessi lögmannsstofa, Mishcon de Reya, mat á nákvæmlega sama hátt og ég og fjölmargir stjórnarandstæðingar og nokkrir stjórnarliðar að væru mjög sterk í þessu máli og ætti að nýta.

Eitt af þessu er til að mynda beiting hryðjuverkalaganna. Raunar var fullyrt að menn hefðu nýtt sér það í samningaviðræðunum og fengið — ef ég man rétt sagði formaður samninganefndarinnar að það hefði verið reiknað inn í samninginn og menn þá væntanlega fengið einhvern afslátt vegna tjónsins sem varð af beitingu hryðjuverkalaganna. Það kom náttúrlega á daginn að þetta var fjarri öllum sanni vegna þess að samningarnir við Hollendinga voru nákvæmlega eins og samningarnir við Breta og ekki beittu Hollendingar okkur hryðjuverkalögum. Það sem stendur upp úr í þessu öllu saman er að enn á ný er þessi ríkisstjórn staðin að því að leyna Alþingi grundvallarupplýsingum í málinu og hún er líka staðin að því að hafa ekki haldið á hagsmunum Íslendinga í þessari baráttu sem skyldi.