140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Efnahags- og viðskiptanefnd hélt í morgun áfram að fjalla um gengislánamálin og þau mörgu viðfangsefni sem standa eftir í kjölfar þeirra. Fram hefur komið að sýslumannsembættið í Reykjavík og sýslumannsembættið í Kópavogi hafa bæði gripið til eðlilegra varúðarsjónarmiða og stöðvað aðgerðir sem beindust að ólögmætum gengislánum. Það er mjög mikilvægt að sýslumannsembætti um allt land hafi uppi sama verklag og ég treysti því að innanríkisráðuneytið fylgi því eftir gagnvart sýslumannsembættum að allir neytendur búi við sama réttaröryggi og þeir gera hjá sýslumanninum í Reykjavík og sýslumanninum í Kópavogi hvað þetta snertir.

Þá er alveg ljóst að veruleg áhöld eru um lögmæti þeirra aðferða sem beitt hefur verið við vörslusviptingu gagnvart fólki um langt skeið og nauðsynlegt að farið verði vendilega ofan í það hvort þar hafi beinlínis verið farið á svig við lög og réttur brotinn á fólki með mjög alvarlegum hætti. Haldinn verður aukafundur í nefndinni síðar í dag með Samtökum fjármálafyrirtækja og Fjármálaeftirlitinu til að fara yfir það með hvaða hætti fjármálafyrirtækin ganga fram gagnvart neytendum um frekari afborganir af þeim lánum sem vafi er uppi um því að í sumum tilfellum er það þannig að það er engin greiðsluskylda hjá skuldurum. Þeir eru þá í þeirri stöðu núna að þeir hafa greitt upp lánin og ef þeir skyldu greiða af þeim þá liggur það fyrir að þeir ættu inni hjá fjármálafyrirtækjunum. Í sumum tilfellum er um að ræða þrotabú þar sem slík inneign yrði að almennri kröfu og gríðarlega mikilvægt að fjármálafyrirtækin gangi ekki á rétt neytenda með því að heimta af þeim, eftir þá dóma sem gengnir eru, greiðslu sem þeir geta ekki staðið skil á.