143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.

316. mál
[14:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 46/2005, um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, en frumvarpið felur að mestu í sér innleiðingu á EES-tilskipun.

Virðulegur forseti. Meginþættir frumvarpsins eru tvenns konar. Annars vegar felur það í sér að skuldakröfur verði nú innleiddar sem löglegt tryggingarform og hins vegar þrengri skilgreiningu á hugtakinu „fjármálagerningur“. Breytingarnar felast í innleiðingu á efni tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins frá 6. maí 2009, en með þeirri tilskipun var skapað samræmt lagaumhverfi fyrir notkun fjárhagslegra tryggingarráðstafana yfir landamæri. Þá voru flest formskilyrði sem venjulega fylgdu tryggingarráðstöfunum afnumin. Markmiðið var að stuðla að opnari og hagkvæmari fjármagnsmörkuðum og stöðugleika fjármálakerfisins og efla þannig frelsi í þjónustu og fjármagnsflutningum á sameiginlega markaðnum fyrir fjármálaþjónustu. Fjárhagslegar tryggingarráðstafanir felast í tvíhliða samningum um veðsetningu eða framsal verðbréfa eða reiðufjár til tryggingar fjárhagslegum skuldbindingum. Gert er ráð fyrir í frumvarpinu að aðilar að slíkum samningum séu einkum stofnanir á fjármálamarkaði.

Sú breyting sem gerð var með fyrrnefndri tilskipun, sem ég nefndi áðan, frá árinu 2009 er fyrst og fremst sú að tryggingarráðstafanir samkvæmt tilskipuninni ná nú einnig yfir svokallaðar skuldakröfur. Í tilskipuninni er skuldakrafa skilgreind sem peningakrafa á grundvelli samnings þar sem lánastofnun veitir fyrirgreiðslu í formi láns.

Talið er að notkun á skuldakröfum muni fjölga tiltækum tryggingum og að meiri samhæfing á þessu sviði muni leiða til jafnari samkeppnisskilyrða lánastofnana í öllum aðildarríkjum. Jafnframt er tekið fram í aðfaraorðum tilskipunarinnar að neytendur og lánþegar mundu hagnast á því að notkun skuldakrafna yrði auðvelduð þar sem það gæti að lokum leitt til meiri samkeppni og greiðari aðgangs að lánsfé.

Með frumvarpinu er einnig lagt til að skilgreiningu á hugtakinu fjármálagerningur verði breytt til samræmis við umrædda tilskipun. Í núgildandi lögum er vísað til skilgreiningar eldri laga um verðbréfaviðskipti en þau voru felld úr gildi árið 2007 með nýjum lögum um verðbréfaviðskipti og skilgreiningu á fjármálagerningi og um leið breytt umtalsvert. Því er lagt til að skilgreining tilskipunar EES verði tekin upp í lögin og færð þannig til samræmis við margumrædda tilskipun. Með þessari breytingu verður skilgreiningin þrengri en í gildandi lögum, en mestu skiptir að afleiður verða þá ekki sérstaklega tilgreindar sem fjármálagerningar.

Þá er lagt til að skilgreiningar á samningi um framsal eignarréttinda yfir fjárhagslegri tryggingu og samningi um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu verði víkkaðar út til samræmis við efni tilskipunarinnar.

Þar sem frumvarpið leggur til að skuldakröfur bætist við sem tryggingarráðstafanir samkvæmt lögunum þarf að skilgreina skuldakröfur og bæta þeim við sem andlagi fjárhagslegra trygginga jafnframt því sem auka þarf við ákvæðið um fullnustuaðferðir svo að þær taki einnig til skuldakrafna.

Virðulegur forseti. Með breytingartilskipuninni er aðildarríkjum veitt heimild til þess að takmarka skilgreininguna á skuldakröfum og undanþiggja tilteknar skuldakröfur. Lagt er til að nýta þessa heimild og undanþiggja neytendalán sem skuldakröfur samkvæmt lögum um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, að undanskildum fasteignalánum og lánum að fjárhæð undir 200 evrum og yfir 75.000 evrum.

Virðulegur forseti. Einnig liggur hér frammi og fylgir frumvarpinu umsögn um frumvarpið frá fjármála- og efnahagsráðuneyti þar sem fram kemur að frumvarpið eða lögfesting þess muni ekki hafa í för með sér nein aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Til upplýsingar var einnig við gerð frumvarpsins haft samráð við Seðlabanka Íslands, Samtök fjármálafyrirtækja, þáverandi efnahags- og viðskiptaráðuneyti og Fjármálaeftirlitið og tekið var tillit til þeirra athugasemda sem frá þeim aðilum bárust.

Virðulegur forseti. Ég hef gert grein fyrir meginþáttum frumvarpsins og legg til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og síðar til 2. umr.