144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

TiSA-viðræður og heilbrigðisþjónusta.

[10:43]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða við hæstv. heilbrigðisráðherra um þær fregnir sem hafa borist af TiSA-viðræðunum svokölluðu en fregnir birtust í Kjarnanum um að gögn hefðu lekið um þær viðræður.

TiSA-viðræðurnar eru viðræður um alþjóðleg þjónustuviðskipti, viðræður sem mikil leynd hefur hvílt yfir af ýmsum orsökum, viðræður sem eru reknar utan Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar af einhverjum ástæðum, viðræður sem mjög mörg alþjóðleg stórfyrirtæki koma að. Við höfum að minnsta kosti einu sinni, og kannski oftar, í vetur rætt þessar viðræður í þessum sal.

Þau gögn sem láku sýndu að tillaga væri um að gera heilbrigðisþjónustu hluta af þessum samningi. Nú veit ég að heilbrigðisráðherra fer ekki með samningsumboð Íslands í þessum viðræðum en það er merkilegt, sem kemur fram um þá tillögu sem lekið var, sem kom að því er gögnin segja frá Tyrklandi, að hún snerist um að mynda markað með sjúklinga þannig að þeir geti ferðast milli landa til að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Þeir sérfræðingar sem hafa rýnt í þessa tillögu hafa bent á að hún muni líklega auka kostnað við veitta heilbrigðisþjónustu í þróunarlöndum og draga úr gæðum hennar í þróuðum löndum Evrópu, Norður-Ameríku, Ástralíu og víðar.

Það kom fram í dag frá upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins að Ísland hefði ekki áhuga á að taka þátt í viðræðum um markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustu með þessum hætti. En mig langar að spyrja, af því að í fréttum kemur fram að þessi tillaga hafi verið uppi á borðum síðan í september, hvort hæstv. heilbrigðisráðherra hafi verið kunnugt um hana, hver hans afstaða sé til þess að heilbrigðisþjónustan sé undir í viðræðum á borð við þessar þar sem verið er að ræða þjónustuviðskipti milli landa. Ef þessi tillaga hlyti hljómgrunn væri algerlega ljóst að hún mundi í grundvallaratriðum breyta uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. (Forseti hringir.)

Við höfum verið að ræða hér ólík rerkstrarform og ég held að það sé mjög mikilvægt að (Forseti hringir.) fá afstöðu ráðherra til þessa máls.