145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

ásakanir þingmanns.

[15:37]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það stakk mig eins og fleiri hér í salnum áðan að heyra orðbragð hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar þegar hann sakaði hv. þm. Birgittu Jónsdóttur um að fara með lygar. Í sömu andrá og farið hafði fram umræða frá öðrum hv. þingmönnum um að bæta hér vinnubrögð og framgöngu þingmanna í umræðu í þingsal kom hv. þingmaður hingað upp og viðhafði þetta orðbragð í garð hv. þingmanns.

Eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir rakti hér hafa upplýsingar komið fram og eru ekki nýjar af nálinni um stóra og mikla styrki útgerðarfyrirtækja til þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Þær upplýsingar eru ekkert nýjar. Þær liggja fyrir og eru staðreyndir. Sannleikanum er hver sárreiðastur, kann kannski einhver að hugsa og það kom mér í hug þegar ég heyrði ummæli hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar. Það er auðvitað lágmark þegar menn koma (Forseti hringir.) og saka aðra þingmenn um lygar að þeir rökstyðji slík (Forseti hringir.) ummæli og hafi fót fyrir sínu máli. Það virtist ekki vera í þessu tilviki.