145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:57]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Bæði var þarft að vitna í hið ágæta bréf sem læknirinn, Svanur Sigurbjörnsson, sendi okkur, og ekki síður fannst mér áhrifaríkt sumt sem hv. þingmaður sagði frá eigin brjósti um kynni sín af því böli sem áfenginu tengist.

Mig langaði að halda áfram umræðunni um frelsið sem hér hefur borið á góma og hv. þingmaður fjallaði dálítið um og er reyndar líka vitnað til í bréfinu; frelsi hverra og hvað eigi að ráða. Ég verð á köflum meira og meira hugsi yfir notkun frelsishugtaksins í þessari umræðu og menn fjalla orðið stundum um frelsið og að eitthvað sé frjálst eins og ótrúlegustu hlutir hafi sjálfstæðan vilja. Menn segja: Frjáls — að opnunartími verslana sé frjáls. Bíddu, hefur verslunin sjálfstæðan vilja í þeim efnum? Vill verslunin vera opin allan sólarhringinn? Nei, það er ekki þannig. Það er eigandi verslunarinnar, sá sem rekur verslunina, sem nýtur góðs af því frelsi. Þá finnst mér við komin nær kjarna málsins hér. Í hverra þágu er þá þessi frelsisvæðing, þetta frjálsræði, sem menn eru að tala um?

Heftir það eitthvað almannafrelsi á Íslandi að viðhafa það fyrirkomulag í sambandi við smásölu á áfengi sem við gerum? Nei, ég held nú ekki. Það er auðvitað fyrst og fremst einn aðili þessa máls sem er sannarlega sviptur frelsi, það eru þeir sem áfengissýkin rænir frelsinu og aðstandendur þeirra. Ef við viljum nálgast þetta mál út frá því að tryggja einhverjum frelsi sem sannarlega hafa það ekki í dag í sambandi við áfengi þá eru það þeir sem lúta í lægra haldi fyrir því og fíkninni í það og aðstandendur þeirra og börn og makar. Það eitt dygði mér til þess að vera algerlega á móti öllu sem ég hefði (Forseti hringir.) sannfæringu fyrir að mundi heldur vera til hins verra í þeim efnum. Ég þyrfti nú ekki flóknari rök, en þau eru auðvitað ótal mörg fleiri.