146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[16:12]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það er svolítið sérstakt að hefja umræðu aftur inni í miðri umræðu. Það var komið að mér á mælendaskrá þegar umræðutíminn var úti hér í síðustu viku. Engu að síður vildi ég fá tækifæri til að fara yfir nokkra þætti í frumvarpinu með tengsl í þá umræðu sem átti sér stað í síðustu viku. Ég átti orðaskipti við hæstv. umhverfisráðherra um tvo þætti sem mig langar aðeins að dýpka betur þegar hægt er að fjalla um þetta með meiri tíma í þessari umræðu. Annað er í 8. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um stuðning við landgræðslu. Frumvarp um skógrækt liggur einnig fyrir frá hæstv. ráðherra, bæði heildstæð frumvörp um þessar greinar, og umræðan hér í síðustu viku var dálítið um gagnrýni, sérstaklega þingmanna Vinstri grænna, um að nauðsynlegt hefði verið að samþætta þessa tvo þætti, eins og það væri jafnvel líka búið að sameina í eina stofnun.

Ég verð að segja eins og er að ég er ekki sammála þeirri nálgun. Það er ekkert að því að mínu viti að hér komi fram tvö frumvörp sem annars vegar fjalli um landgræðslu og hins vegar um skógrækt. Ég get svo sem líka viðurkennt að málið er mér skylt þar sem ég átti sem umhverfisráðherra þátt í að taka upp vangaveltur um hvort það ætti að bíða eftir að menn væru búnir að finna samhljóm um hvort hægt væri að búa til eina stofnun og samþætta þar af leiðandi þessi tvö verkefni eða hvort ætti að setja af stað vinnu við að smíða frumvörp um báða málaflokkana. Hér hafa þau sem sagt birst eftir nokkurra ára vinnu sem ég hef náttúrlega ekki komið að síðan.

Það sem mig langaði að taka hérna upp, þá inn í umræðuna og jafnvel við hæstv. ráðherra, er að þó að hér sé um tvö frumvörp að ræða, annars vegar stuðning ríkisins við landgræðslu og hins vegar við skógrækt, og stjórnsýsluumhverfi þessara tveggja málaflokka og að þetta sé í tveimur frumvörpum — ég tók þá umræðu upp við hæstv. ráðherra í andsvörum — er að mér finnst skorta nokkuð á og hefði viljað sjá að ríkisvaldið horfði meira á landgræðsluna sem þá grein sem er grundvöllur þess að græða upp landið, stöðva fok og koma í veg fyrir mengun. Í því ljósi hefði verið eðlilegt, þar sem við erum að styrkja skógrækt með allt að 97% útgjöldum þeirra sem stunda skógrækt, að í frumvarpinu um landgræðsluna hefði staðið eitthvað sambærilegt eða að menn hefðu sagt að þar sem þetta eru tveir málaflokkar sem gætu þess vegna átt heima í einni stofnun eða hægt að nálgast þessi tvö málefnasvið með svipuðum hætti væri aðkoma ríkisins sambærileg.

Þetta segi ég vegna þess að ég veit að landgræðsla er stunduð af fjölmörgum aðilum, ekki síst bændum, vörslumönnum lands. Frábært verkefni sem heitir Bændur græða landið hefur staðið yfir í þó nokkuð mörg ár og hefur skilað mjög miklum árangri. Þar hefur hinn opinberi stuðningur verið að hluta til áburður, þ.e. sá hluti af áburðinum sem menn nýta til að græða upp, og fræ en bændurnir sjálfir hafa lagt til öll tæki og allan vinnutímann, allan kostnaðinn í raun og veru við verkefnið. Hið sama má segja um frjáls félagasamtök, hvort sem eru landgræðslufélög eða uppgræðslufélög sem bændur eru oft í líka, en einnig alls kyns klúbbar sem hafa tekið að sér að rækta upp land. Allt þetta fólk gerir þetta í sjálfboðavinnu, sér að sjálfsögðu ekki eftir því en maður gæti velt fyrir sér, þar sem eitt af áherslumálum okkar í loftslagsmálum er uppgræðsla, að stöðva fok og græða upp til að binda kolefni, hvort þarna væri ekki akkúrat vettvangur fyrir ríkið að koma fram með aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og segja: Þess vegna ætlum við við þessar aðstæður að fara að styrkja landgræðslu með allt öðrum hætti en við höfum gert í mjög langan tíma.

Þegar sex ráðherrar komu hér saman rétt fyrir helgi og fóru nokkuð mikinn í því að hér væri að komast á koppinn einhver aðgerðaáætlun hjó ég eftir að þá var m.a. talað um landgræðslu. Það var reyndar líka talað um samráðið við stjórnarandstöðuna, af því að við höfum verið svolítið í því í dag, og mér fannst það ágætt en það hefði svo sem líka mátt ámálga það við stjórnarandstöðuna áður en menn töluðu um að það væri mikið samráð. Það fer að verða dálítið þreyttur frasi að heyra að það þurfi að hafa aukið samráð við stjórnarandstöðuna þar sem meiri hlutinn sé svo lítill, bæði til þess að mál gangi betur fram og að það sé vandaðri stjórnsýsla og meira gegnsæi.

En látum það nú eiga sig. Aðalatriðið er það sem ég vildi nota tíma minn í að koma helst að, að ég tel að nú sé tækifærið til að auka verulega stuðning hins opinbera við þá mikilvægu vinnu sem hefur verið unnin áratugum saman og jafnvel árhundruðum af mörgum þeim sem eru bestu vörslumenn landsins, þ.e. bændum landsins, en einnig hinum fjölmörgu félagasamtökum, sveitarfélögum og öðrum sem hafa lagt þessu verulega lið. Við sjáum sannarlega árangur af því starfi. Ísland er að gróa upp og við sjáum verulegan árangur. Ef við skoðum loftmyndir með fimm ára millibili sjáum við að við erum á allt öðrum stað en við vorum fyrir fimm árum, hvað þá tíu eða 15 þannig að við erum sannarlega á réttri leið.

Ég hefði talið að þegar menn ætla að setja fram heildstætt frumvarp um þennan málaflokk, til að endurnýja u.þ.b. 50 ára löggjöf, hefði verið tækifæri til þess að segja: Já, við horfum m.a. á hvernig við höfum farið í skógræktina og núna ætlum við að taka landgræðsluna af því að hún er eitt af okkar mikilsverðustu tækifærum til að sinna því sem við ætlum að gera í loftslagsmálum, binda kolefni, græða upp landið og koma í veg fyrir mengun. Í því sambandi minntist ég örstutt á, og þykir áhugavert, að talsvert hefur verið rætt um Þingvallavatn og jafnvel Mývatn, en aðallega mikilvægi þess að halda tærleika Þingvallavatns. Öll erum við sammála um það. Settar hafa verið á sérstakar reglugerðir um vatnsgæði og alls konar hluti sem þar á að fylgja eftir. Þegar menn fóru svo að skoða hvað veldur menguninni í Þingvallavatni kom í ljós að það voru ekki sumarbústaðirnir eða skolpið og ekki bílarnir þó að umferðin þarna í gegn sé umtalsverð. Það voru ekki heldur túristarnir sem komu á staðinn, heldur var stærsti þátturinn fok, m.a. inn af Hagavatnssvæðinu sem sumir hafa skirrst við að horfast í augu við sem vilja gjarnan vera miklir umhverfissinnar. Þegar kemur að því að ræða um að reyna að stoppa fokið við Hagavatnssvæðið má það ekki vegna þess að það skyldi þó ekki vera að einhverjum dytti í hug að setja eitthvert rör og fara að framleiða rafmagn. Jafnvel gekk það svo langt að einn umhverfissinninn hér á þarsíðasta kjörtímabili sagði að það mætti búa til allar stíflurnar og sökkva og hækka vatnsborðið, það mætti bara alls ekki búa til rafmagn úr því.

Þetta hljómar auðvitað sérkennilega og er ekki aðalatriðið í þessu máli. Aðalatriðið í því er að til þess að stöðva fok þurfum við að auka landgræðslu. Við erum öll sammála um það. Til að ná stóru átaki í að auka landgræðslu væri eðlilegt að ríkið kæmi að því með stuðningi, sérstaklega í ljósi þess að í hinu málinu sem við fjöllum kannski um síðar, skógræktinni, hefur ríkið tekið nokkuð skýra afstöðu í langan tíma og byggt upp og verið tilbúið að greiða allt að 97% af kostnaðinum.

Það voru nokkur önnur atriði sem ég ætlaði að minnast á en sé nú að ég muni kannski ekki hafa tíma til þess alls. Ég verð að treysta því að um það verði fjallað í nefndinni.

Mig langar þó að minnast á að Landgræðslan hefur umtalsvert verkefni sem heitir varnir gegn landbroti og er talað um í VI. kafla frumvarpsins. Þar er til að mynda talað um samráð við landeiganda og samráð við eigendur beggja bakka. Ég vil í þessari umræðu benda á að það þarf náttúrlega að gera meira en að tala við eigendur beggja bakka hvorn sínum megin á sama stað við ána því að ár á Íslandi hegða sér þannig að ef þær eru stöðvaðar af á einhverju tilteknu svæði hafa þær tilhneigingu til að rétta af sinn hlut aðeins neðar í ánni þannig að áhrifin koma fram miklu víðar. Auðvitað er þetta verkefni sem þarf að fara varlega í.

Verkefnið að stöðva landbrot af völdum flóða er auðvitað stórkostlega stórt, ekki síst á Suðausturlandi þar sem jöklarnir minnka, fljóta stjórnlausir um í vaxandi mæli og breyta árfarvegum umtalsvert. Það er síðan ekki fyrr en það fer að ógna einhverjum mannvirkjum eins og vegagerð eða brúm sem við bregðumst við en það væri hægt að bregðast við fyrr í ferlinu, inn við jöklana, á miklu ódýrari hátt. En þá hefur skort fé og í þessu frumvarpi er ekkert verið að fjalla um það. Ég vildi bara benda á það í þessari umræðu að Landgræðslan þarf í þetta mikilsverða verkefni sem hún hefur með höndum auðvitað fjármagn til að geta gert það. Þetta getur bæði komið í veg fyrir umtalsvert landbrot sem síðan kostar okkur landgræðslu og þegar mannvirki eins og vegir eða brýr eru síðan komin í hættu kostar það miklu meira en ef fyrr er brugðist við.

Þetta vildi ég nefna hér.

Svo undir lokin er annað atriði sem mér heyrðist þó í andsvörum við hæstv. ráðherra að væri komið á betri stað. Ég fékk alveg þolanlegar skýringar á því sem ég spurði um. Þegar land hefur verið tekið til skógræktar hafa verið gerðir nokkuð skýrir samningar um réttindi og skyldur landeigandans, hvenær hann fær land sitt aftur og hver á þá skógræktina, þó að reyndar hafi verið deilur um það hver eigi kolefniskvótann þegar kemur að loftslagsmálum.

Í landgræðslunni og sérstaklega þá í eldri sögu hennar var kannski algengt að Landgræðslan, og Sandgræðslan sem þar var á undan, tæki einfaldlega land í fóstur af því að beðið var um það án þess að það væri skýr frágangur um það hver ætti landið og hver ætti landgræðsluna sem þar væri. Við höfum því miður á síðustu árum séð koma upp deilur um þetta. Mér fyndist mikilsvert ef hægt væri að fara ofan í þann lista sem Landgræðslan hefur undir höndum um öll þau svæði sem hún hefur haft til landgræðslu og skýra með ívilnandi hætti gagnvart landeigandanum hver eigi landið og hvernig skuli þá fara með þegar Landgræðslan hefur lokið sínum störfum.

Þetta á líka við um jarðir í eigu ríkisins sem á síðustu árum hefur komið til tals að leigja út aftur til ábúðar eða selja. Þá hefur komið fyrir að Landgræðslan hafi tekið undan, og ég sé að það er leyft áfram í þessu frumvarpi, tiltekna hluta jarðarinnar og þar með skert jörðina um alla framtíð. Ég veit ekki hvort þetta er skynsamlegt, hvort skynsamlegra væri að setja frekar einhverjar kvaðir inn í sölusamninginn um að þetta tiltekna landsvæði sem tilheyrði þeirri jörð ætti að vera í umsjón Landgræðslunnar með samningi við landeigendur og mætti ekki nota nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum í stað þess að taka það undan jörðinni um aldur og ævi.

Við erum með jarðalög þar sem bannað er að taka undan ákveðin hlunnindi við sölu á jörðunum. Það má alveg halda því fram að þegar teknir eru mjög stórir hlutar af jörðum undan jörðinni til landgræðslu og fela Landgræðslunni eignarhaldið sé verið að gera slíkt hið sama. Ég held að það þurfi aðeins að fara ofan í saumana á þessu svo skýrt sé, en auðvitað með það markmið fyrir augum að tryggja að land sé nýtt með sjálfbærum hætti og að Landgræðslan eigi þess kost að hafa eitthvað um það að segja.