146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

505. mál
[18:52]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra framsögu hans. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, í ljósi þess að ég var viðstödd þegar þessi hámörk voru sett á úttektir — til skýringar er hér um að ræða þá eigendur aflandskrónueigna sem hafa átt þær eignir í samfelldu eignarhaldi, eins og ég skil málið, þ.e. frá því að fjármagnshöft voru sett. Ég spyr hvort þetta muni hafa áhrif á aðrar þær aflandskrónueignir sem eru enn inni í kerfinu, ef við getum orðað það sem svo. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra — nú hef ég ekki náð að lesa greinargerðina frá orði til orðs — að segja okkur hvert umfang þeirra eigna er sem þessi heimild mun þá ná til. Hvert er umfang þeirra í kerfinu? Ég sé hér að ekki er búist við að þetta hafi veruleg áhrif á efnahag ríkisins eða auki verulega útstreymi á eignum. Þetta er auðvitað mikil hækkun, úr einni milljón króna í 100. Hvað er það stór stabbi sem þetta ákvæði tekur yfir? Það eru þá fyrst og fremst og eingöngu aflandskrónur sem hafa verið í samfelldri eigu. Mun þetta snerta aðrar þær krónueignir sem hafa þá ekki verið í samfelldri eigu frá því að fjármagnshöft voru sett?