146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

um fundarstjórn.

[19:36]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér fyrr á þinginu leiðréttum við lög sem kostuðu ríkið 2,5 milljarða á mánuði. Þau lög voru gölluð vegna þess að þau fóru í gegnum þingið í flýti undir lok síðasta kjörtímabils. Við þurfum að læra af reynslunni og passa okkur á að lenda ekki í slíkum málum aftur. Vel má vera að þetta mál kosti ekki milljarða en það varðar réttindi og skyldur starfsmanna, erlendra starfsmanna og fyrirtækja. Píratar hafa efasemdir um að þingið geti afgreitt málið á þeim tíma sem eftir er. Dæmin sem við höfum glímt við núna á þessu þingi sýna okkur að það er mjög nauðsynlegt að fara mjög vel yfir málin og flýta þeim ekki að óþörfu, sérstaklega ef þau eru eins flókin og stór í sniðum og þetta. Þetta eru (Forseti hringir.) heilar 65 bls., 60 greinar. Það er ekkert smámál að fara yfir þetta allt og umsagnir, hvað þá á styttum umsagnartíma. (Forseti hringir.) Við þurfum að ræða þetta vel og lengi og fara vandlega yfir þetta með ráðherra, sem ætti að minnsta kosti að geta mætt hérna og gert grein fyrir máli sínu.