150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.

310. mál
[15:44]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég verð að segja að ég er nokkuð hugsi yfir þessari tillögu til þingsályktunar, ekki af því að það sem þar er tekið á sé ekki eitthvað sem þarft er að skoða, heldur vegna þess hversu einhliða hún er í því hvað það er sem þarf að skoða þegar kemur að smávirkjunum á Íslandi og umhverfi þeirra. Hér er ekkert verið að velta fyrir sér t.d. stærðum smávirkjana. (Gripið fram í: Jú.) Ekki er neitt um það í þingsályktunartillögunni þó að vissulega sé farið yfir málið, þ.e. yfir umhverfi smávirkjana, m.a. það lagaumhverfi sem um þær ríkir. Ekkert er verið að velta fyrir sér hvort 9,9 MW sé of mikið, hvort við eigum að lækka þessi stærðarmörk eða hvort við eigum kannski að afnema. Eigum við ekki að hafa neitt mark á þessu heldur meta í hverju tilfelli fyrir sig eftir umhverfisáhrifum? Ekkert er farið yfir það hvað við teljum um þá stöðu sem uppi er að mjög víða um land upplifir fólk það þannig að nánast sé farið með stækkunargler um allar sprænur til að leita að mögulegum virkjunarkostum svo að nú eru þeir tugum saman til í opinberum skjölum um hvar mögulega sé hægt að virkja. Ekkert er um þá upplifun fólks á ýmsum svæðum að hér sé samstillt aðgerð um að virkja nánast hverja sprænu undir hatti smávirkjana. Ekkert um það hvort það sé rétt, hvort þurfi að skoða það eitthvað, heldur aðeins nefnd einföldun ferlisins til að koma upp fleiri smávirkjunum. Ekki er annað hægt að lesa út úr þingsályktunartillögunni þar sem það er eina markmiðið sem sett er við endurskoðunina að einfalda regluverkið og umsóknarferli í tengslum við það. Í greinargerðinni er vísað í stjórnarsáttmála og talað um átak í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings. Sem er hárrétt, en ekki á kostnað umhverfis og náttúru, um það hefur aldrei verið samið.

Ég tel fyllstu þörf á því, forseti, að skoða umhverfi smávirkjana. Sagan í því er athyglisverð eins og oft. Hver er ástæðan fyrir því að við enduðum með 10 MW? Það er erfitt að sjá. Þegar frumvarpið kom fram á sínum tíma var miðað við 7 MW, síðan í umfjöllun nefndarinnar og svo í þingsal breyttist sú tala allt í einu í 10. Af hverju? Af hverju þurfa virkjanir sem eru 10,1 MW fara í rammaáætlun og fleira, en ekki 9,9 MW? Hver er ástæðan fyrir því? Ég veit ekki af hverju þetta eru mörkin.

Ég fagna samt ýmsum tillögum um smávirkjanir. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson hefur t.d. lagt hér fram að lækka skuli mörkin niður í 1–2 MW, ef ég man rétt. Það finnst mér skynsamlegt að skoða og já, forseti, mér finnst skynsamlegt að skoða það miðað við það sem ég kalla raunverulegar smávirkjanir, sem sé bóndinn að virkja bæjarlækinn, hvort regluverkið þar sé óþarflega strangt. Því að það er alveg rétt, forseti, sem kemur fram í greinargerðinni að það þarf ekki endilega að vera sama regluverkið sem gildir um slíka virkjun og 10 MW virkjun. En málið er bara miklu, miklu stærra en það. Þess vegna myndi ég styðja úttekt á smávirkjunum, umhverfi þeirra, lagaumgjörð, með því sem ég hef tæpt hér á og ótal mörgum öðrum hlutum. En ég get ekki stutt þetta.

Hér eimir líka að einhverju leyti eftir af því viðhorfi sem mér hugnast ekki og samþykki ekki endilega, en get þó að einhverju leyti skilið, þ.e. að umhverfismat sé svo þungt og tímafrekt, eins og kemur fram í greinargerðinni. Það er staðreynd að þetta viðhorf er uppi mjög víða. Í því ljósi er ágætt að nefna að endurskoðun er í gangi varðandi einföldun á mati á umhverfisáhrifum svo það verði skilvirkara. Í mínum huga eigum við að hafa kerfið þannig að mat á umhverfisáhrifum ætti að vera reglan frekar en undantekningin. Að sjálfsögðu þarf að horfa til umfangs og eðlilegra framkvæmda hvað það varðar. En ég vildi nefna þetta viðhorf og koma því að hér að þessi endurskoðun er í fullum gangi.

Forseti. Ég er tilbúinn í endurskoðun á smávirkjunum og raunar höfum við í nefnd um orkustefnu og mótun hennar að einhverju leyti rætt um smávirkjanir þó að við höfum ekki farið djúpt í það. Ég er til í að skoða það sem ég nefndi áðan, þ.e. stærðarmörk. Hvernig stendur á því að ef ég reisi þrjár smávirkjanir tiltölulega á sama svæði, upp á 9,9 MW hverja, þá losna ég undan ferli sem ein 20 MW virkjun, með minna uppsett afl en hinar þrjár samanlagt, þarf að fara í? Er það það sem við sem löggjafi viljum? Ég held ekki. Ég held að við eigum að forðast í lengstu lög að hafa einhver mörk því að þegar lent er öðrum hvorum megin við þau gjörbreytist allt, þó að reyndin sé sú að breytingin sé kannski ekki mikil. Munum það, forseti, að 9,9 MW virkjun getur haft meiri umhverfisáhrif en mun stærri virkjun. (Gripið fram í.) Mun meiri umhverfisáhrif.

Við höfum búið til ferli um það hvernig við ætlum að raða niður virkjunarkostum, öllum yfir 10 MW. Ég held að það ferli ætti að eiga við um fleiri kosti og ég held að við eigum að fara varlega í að kalla einhliða eftir því að regluverk og umsóknarferli allt verði einfaldað þegar kemur að smávirkjunum. Kannski ættum við raunverulega að búa til smávirkjanaflokkinn, því að eins og ég sagði, forseti, þá hugnast mér það sem kemur fram í greinargerðinni. Kannski ættum við að búa til hinn raunverulega smávirkjanaflokk þar sem raunverulega er verið að virkja bæjarlækinn fyrir sig og kannski næstu bæi. En 9,9 MW virkjun er ekki virkjun bæjarlækjar, hún er það alls ekki. Hún er virkjun þar sem mögulega er eitthvað af aflinu og orkunni nýtt í nánasta umhverfi en langstærsti hlutinn er bara seldur inn á raforkukerfið okkar, sem er fínt, okkur vantar raforku. Fínt. En við skulum ekki slaka á umhverfismálum.