150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.

310. mál
[15:55]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður sagði eitthvað á þá leið að það segði sig sjálft að minni virkjun hefði minni áhrif en stærri. Það er rangt eins og ég tók hér fram. Það segir sig nefnilega ekki sjálft. Það fer eftir aðstæðum hverju sinni. Eins og ég tók fram í ræðu minni getur 9 MW virkjun haft meiri umhverfisáhrif en t.d. 20 MW virkjun, svo að það sé sagt.

Ég hef á engan hátt talað gegn því að vatnsaflsvirkjanir séu reistar, alls ekki. Ég man ekki betur en ég hafi undir lok ræðu minnar sagt að það væri fínt að við myndum virkja og selja inn á kerfið okkar. En ég vil að við höfum það undir því sama kerfi sem við búum til til að tryggja að öll áhrif séu metin. Mat á umhverfisáhrifum er ekki sjálfgefið og þetta er fyrir utan allt sem heitir t.d. rammaáætlun. Ég veit ekki betur en að umhverfisráðherra Vinstri grænna sé nú að boða framlagningu slíkrar áætlunar þannig að ég skil ekki orð hv. þingmanns um að Vinstri græn séu einhvern veginn að skila auðu í þeim málum. Ég skil það einfaldlega ekki.

Hvers vegna hugnast mér þetta ekki? Jú, forseti, ég hélt ég hefði farið yfir það. Hér segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra og atvinnu- og nýsköpunarráðherra að endurskoða lög og reglugerðir er gilda um leyfisveitingar til uppsetningar smávirkjana með það að markmiði að einfalda umsóknarferli í tengslum við þær.“

Þetta er það eina sem Alþingi á að fela ráðherra að skoða, ekki umhverfið um smávirkjanir, ekki rannsóknir einstakra stofnana á þeim, ekki það hvort mörkin séu rétt eða ekki heldur bara leyfisveitingaferlið. Það er það sem mér hugnast ekki, hæstv. forseti.