150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.

310. mál
[16:31]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir innlegg hennar í þessa umræðu. Það kom fram fyrr í umræðunni hjá Kolbeini Óttarssyni Proppé að við Framsóknarmenn erum mjög góðir í að ná utan um umræðuna og gera hana að okkar. Mér sýnist að flestir sem hafa tekið hér til máls séu allir að færast í þann flokk. Það er frekar áhugavert þegar við erum að fjalla um þessi mál, og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom inn á það ágætlega í sinni ræðu, þetta skriffinnskubákn, þetta skipulagsvesen. Maður má kannski ekki taka svona til orða en tökum bara sem dæmi þá virkjun sem stendur mér næst, sem er bara í bakgarðinum heima hjá mér. Mig minnir að ferlið hafi tekist sjö ár frá því að farið var af stað þangað til að þeir komust í verkefnið. Og þarna er bara verið að tala um 5,5 MW. Við skulum samt ekki gefa afslátt á því að ganga vel um náttúruna því að nýting og vernd, sem er nú kjörorð okkar Framsóknarmanna, fer alltaf saman í þessu.

Það væri fróðlegt að spyrja hv. þingmann, sem hefur mikla þekkingu á skipulagsmálum, að því hvaða skref við þyrftum að taka varðandi minni virkjanirnar, hvort hún sé með einhverjar hugmyndir um það hvernig við getum náð utan um þann þátt.