150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

311. mál
[18:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla að reyna að forðast að fjalla efnislega um það hvort flugvöllur ætti að vera áfram í Vatnsmýrinni eða ekki vegna þess að mig langar að ræða um beint lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur, samanber tillöguna sem við ræðum hér í dag. Fyrst vil ég segja að ég mun styðja tillöguna að þrennu gefnu: Í fyrsta lagi að hún verði gerð bindandi en ekki ráðgefandi, hún verði útfærð og hún verði í samræmi við sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga.

Nú verð ég að nefna enn og aftur í dag, því miður, þriðja orkupakkann. Það var mjög heitt umræðuefni sem hér var rætt mjög lengi eins og þingmenn muna (Gripið fram í.) og það var eitthvað um undirskriftir gegn því máli og ákall í samfélaginu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Hjá Pírötum, flokknum, var lagt til að við myndum halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu um þriðja orkupakkann og vegna þess að við á þingi vissum ekki hvort hún yrði samþykkt eða ekki undirbjuggum við breytingartillögu við það þingmál ef ske kynni að sú tillaga yrði samþykkt. Ef flokkurinn ákveddi að það ætti að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um þriðja orkupakkann myndum við leggja breytingartillöguna fram. Það var þrátt fyrir að þingmenn Pírata voru aldeilis ekki allir á því að það ætti að halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er t.d. ekki þeirrar skoðunar að það hefði átt að gera það en ég hefði lagt fram í eigin nafni breytingartillögu við þriðja orkupakkann um að það skyldi halda bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu ef flokkurinn hefði ákveðið að það væri leiðin sem við vildum fara. Nema hvað, tillagan var felld hjá flokknum þannig að við lögðum breytingartillöguna ekki fram. Í kjölfarið settum við okkur stefnu sem er þannig að ef 10% kjósenda leggja fram undirskriftir þess efnis að þeir vilji þjóðaratkvæðagreiðslu um eitthvert efni mun þingflokkur Pírata leggja fram og/eða styðja við breytingartillögu þess efnis að tillaga eða frumvarp sem er til meðferðar á þingi verði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er núna samþykkt stefna flokksins.

Ég tel að við höfum sannað það að við stöndum með beinu lýðræði og við stöndum með þjóðaratkvæðagreiðslum, viljum að þær séu framkvæmdar af ábyrgð og við viljum að þjóðarviljinn sé virtur. Allt þetta er beinustu leið komið úr frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár sem ég ætla að fjalla aðeins um á eftir, nánar tiltekið 67. gr. þess, sem byggir á frumvarpi stjórnlagaráðs, því góða frumvarpi.

Í þessu máli hafa verið lagðar fram u.þ.b. 70.000 undirskriftir fyrir því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Það er samkvæmt vefsetrinu lending.is. Þar er farið yfir það hvernig þessar undirskriftir hafa verið staðfestar. Nú er ég sem hér stend ekki í aðstöðu til að ákveða endanlega hvort slík söfnun fari rétt fram eða ekki, enda er ekkert formlegt ferli til þess í dag, þ.e. utan þeirra stofnana sem ákveða að safna sjálfar, í þessu tilfelli samtökin Hjartað í Vatnsmýrinni. En þetta er það skásta sem við höfum. Ég fæ ekki betur séð en að þessar undirskriftir séu lögmætar, 70.661 stykki sem eru komin samkvæmt vefsetrinu og það þykir mér nægur lýðræðislegur stuðningur við þjóðaratkvæðagreiðslu til að styðja þetta mál, framkvæmd þess, að gefnum þeim lagfæringum sem ég mun leggja til hér á eftir og í sjálfstæðri breytingartillögu.

Vandinn við málið eins og það stendur núna er þríþættur. Í fyrsta lagi er það ekki bindandi. Yfirvöld munu hunsa niðurstöðuna. Við vitum það vegna þess að yfirvöld hafa hingað til hunsað niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu þegar þau langar til þess. Þegar yfirvöld langar ekki til að framfylgja niðurstöðunni þá hunsa þau niðurstöðuna. Það er kannski vegna þess að við tökum lýðræðinu sem sjálfsögðum hlut hérlendis meðan eins og í konungsríkinu Bretlandi kemur ekki til greina að hunsa niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu, jafnvel þegar jafn mikið er í húfi og aðild að ESB eins og við þekkjum.

Í öðru lagi fylgir þessari þingsályktunartillögu engin leiðsögn um næstu skref. Það er gott og blessað að vera þeirrar skoðunar að flugvöllur eigi áfram að vera í Vatnsmýrinni, sömuleiðis gott og blessað að vera þeirrar skoðunar að hann skuli fara en það þarf að vera einhver leiðsögn um næstu skref. Hvað á að gera? Hvað á ráðherrann að gera? Hvað á Alþingi að gera? Hvað á Reykjavíkurborg að gera? Á einhver að gera eitthvað? Og hvað er það? Það vantar alfarið í þingsályktunartillöguna. Raunveruleikinn er sá að það þarf annaðhvort að fela ráðherra að semja við Reykjavíkurborg um áframhaldandi ótímabundna veru flugvallarins eða það þarf að svipta Reykjavíkurborg skipulagsvaldinu yfir þessu svæði. Það leiðir mig að þriðja vandanum sem er nákvæmlega sjálfsákvörðunarréttur Reykjavíkurborgar. Hann er enn þá til staðar og enginn hér hefur lagt fram frumvarp um að svipta Reykjavíkurborg honum, enda væri það nú aldeilis havaríi, held ég, sér í lagi frá flokkum sem hafa haldið digurbarkalegar ræður um mikilvægi sjálfsákvörðunarréttar sveitarfélaga. Þar held ég að hnífurinn standi í kúnni. Það held ég að sé vandinn við þetta mál og þess vegna held ég að þetta mál sé lagt fram sem þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu frekar en að markmiðið sé einfaldlega að svipta Reykjavíkurborg sjálfstæðinu. Menn vita alveg um leið og þeir skoða málið að það þarf að gera það eða semja við Reykjavíkurborg. Það eru bara þessir tveir valmöguleikar.

Ég er á móti því að svipta sveitarfélög sjálfsákvörðunarrétti almennt. Ég get alveg ímyndað mér einhverjar aðstæður þar sem það gæti verið réttlætanlegt. Mér þykir Reykjavíkurflugvöllur engan veginn komast nálægt því, ekki síst vegna þess að þetta svæði og nýting þess felur líka í sér stórkostlega hagsmuni Reykjavíkurborgar, ekki einungis þeirra sem nota flugvöllinn og búa úti á landi, sér í lagi hvað varðar þéttingu byggðar. Meðan ég man: Þétting byggðar er ekki gæluverkefni, það er mjög mikilvægt, m.a. fyrir öryggi fólks, umhverfi og fleira í þeim dúr sem ég myndi nú reyndar láta borgarstjórnarflokki Pírata eftir að útskýra hér í lengra máli enda, eins og fram hefur komið, snýst ákvörðunin á endanum um það hvað Reykjavíkurborg ákveður, samanber sjálfsákvörðunarrétt hennar.

Þetta er ástæðan fyrir því að ég vil ekki hafa efnislega skoðun á því hvort flugvöllurinn eigi að vera eða ekki. Þetta tilheyrir Reykjavíkurborg. Við erum ekki hér að fjalla um það hvort flugvöllurinn verði áfram í Reykjavík, í Vatnsmýrinni, eða ekki. Þetta þingmál snýst ekki einu sinni um það. Þetta snýst um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um þá spurningu og er, eins og ég segi, ekki ráðgefandi, hún er óútfærð og á skjön við sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga ef hún á að þýða eitthvað yfir höfuð. Það er gallinn.

Ég vil samt ekki halda enn eina ræðu með eintómum bölmóð og kem því með lausnir. Það er í raun og veru mjög lítið vandamál að laga tillöguna þannig að hún uppfylli öll þessi grunnskilyrði að mínu mati, að hún sé bindandi, útfærð og virði sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Það er með því að breyta henni eitthvað á þá leið að Alþingi álykti að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að semja við Reykjavíkurborg um ótímabundna áframhaldandi veru flugvallarins í Vatnsmýri. Ályktunin taki gildi við samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu sem skuli haldin samkvæmt lögum sem fjalla um þjóðaratkvæðagreiðslu, þrátt fyrir lokamálslið 1. mgr. 1. gr. þeirra laga.

Þetta er að mínu mati snyrtileg lausn sem myndi gera það að verkum að hægt væri að samþykkja tillöguna hér á þingi og skilja valdið alfarið eftir í höndum kjósenda um næsta skref og næsta skref væri vel skilgreint. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra væri falin sú skylda að ganga til þessara samninga við Reykjavíkurborg.

Eins og ég nefndi áðan er eina leiðin önnur sem ég sé sú að svipta Reykjavíkurborg skipulagsvaldinu yfir þessu svæði. Gangi mönnum vel við að reyna að koma því í gegn, segi ég samt í kaldhæðni því að ég held að það myndi ganga illa. Ég myndi reyndar vona að það gengi illa vegna þess að sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga á að vera mikill og hann á að vera virtur og ekki bara þegar það er þægilegt og ekki bara þegar það hentar öllum, heldur er það ákveðið grundvallaratriði sjálfsákvörðunarréttarins sem sveitarfélög njóta að mínu mati samkvæmt stjórnarskránni.

Á lokamínútunni vil ég fjalla aðeins um það að í rauninni er lausnirnar á þessu öllu saman að finna í frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár, nánar tiltekið 67. gr. þess frumvarps sem er það nýjasta, frumvarpinu sem er grundvallað á frumvarpi stjórnlagaráðs. Þar er fjallað um þingmál að frumkvæði kjósenda. Þar kemur fram að 2% kjósenda geti lagt fram frumvarp eða tillögu til þingsályktunar á Alþingi. Það þyrfti ekki 70.000 undirskriftir, það þyrfti 2%. Síðan fengi það væntanlega bara sína þinglegu meðferð. En ekki nóg með það heldur geta 10% kjósenda lagt fram frumvarp til laga á Alþingi. Svo er fjallað um hvernig málsmeðferðin yrði á því. Þá er hægt að kveða á um þjóðaratkvæðagreiðslu um það frumvarp samkvæmt þeim skilyrðum sem þar eru útlistuð. Við erum oft hérna að ræða einhver vandamál sem við ætlum að leysa með einhverri umræðu, einhverjum tillögum eins og þessum þegar lausnirnar eru beint fyrir framan okkur, hafa verið það lengi og það eina sem við þurfum að gera til að leysa svona mál er að hlusta á það sem kjósendur sjálfir hafa sagt okkur.