151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

málefni atvinnulausra.

[13:10]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og vil segja að við höfum verið í mjög góðu sambandi við sveitarfélögin. Við höfum verið í mjög góðu sambandi við Félagsþjónustu sveitarfélaga, við Samband íslenskra sveitarfélaga og höfum undanfarnar vikur, ekki í neinni nefnd, það er engin nefnd starfandi, heldur innan ráðuneytisins í samstarfi við sveitarfélögin verið að kortleggja þann hóp sem er að klára bótatímabil. Hvernig er hann samsettur? Hversu hátt hlutfall er þarna af einstaklingum sem hafa verið að fá fjárhagsaðstoð? Hversu hátt hlutfall er þar af einstaklingum sem hafa verið á vinnumarkaði? Hversu hátt hlutfall er þar af flóttamönnum? Við skoðum alla þá þætti. Samhliða höfum við verið að teikna upp möguleikann á því að ná betur utan um þennan hóp fjárhagslega, bæði gagnvart þeirra stöðu, gagnvart stöðu sveitarfélaganna og líka til þess að koma fólki í virkni, fara að skapa störf og skapa atvinnu, vegna þess að eins og hv. þingmaður hefur margoft nefnt í sínu máli þá er það ekki vilji neins að vera atvinnulaus. En það er hins vegar líka samfélagið sem getur skapað störfin til að ná utan um vandann. Ríkisstjórnin hefur svo sannarlega verið með margvíslegum aðgerðum að grípa inn í á vinnumarkaði og við erum að undirbúa frekari aðgerðir í því og munum gera það áfram (Forseti hringir.) eftir því sem kórónuveirufaraldurinn dregst á langinn. Það er mjög skynsamlegt að gera það, að vera alltaf á tánum, og það hefur ríkisstjórnin gert.