151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

endurhæfingarúrræði fyrir fólk með ákominn heilaskaða.

[14:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Eftir þessa umræðu um ákominn heilaskaða, hvort sem um er að ræða börn, unglinga eða fullorðna einstaklinga með heilaskaða, held ég að niðurstaðan sé sú að ákveðin vandamál séu í gangi. Ég held að ekki sé búið að kortleggja hvernig þjónustu þetta fólk fær, hversu hratt og vel þjónustan er veitt og hvort það eru biðlistar. Við vitum að það eru gífurlegir biðlistar hjá talmeinafræðingum og við vitum að það eru biðlistar í kerfinu. Síðan er auðvitað eitt sem er kannski óplægður akur í þessu samhengi og það eru aðstandendur þeirra sem eru í þessu ástandi. Hver er þeirra hjálp? Er kortlagt hvernig ástandið er t.d. hjá fjölskyldum þeirra sem eru í þessari aðstöðu? Ég held að það hafi ekki verið gert en þar gæti fólk þurft á mikilli hjálp að halda. Það kom fram í umræðunni að vímuefni gætu valdið heilaskaða og við vitum t.d. að fyrir börn sem alast upp hjá fólki sem er í vímuefna- og áfengisneyslu, og búa jafnvel við ofbeldi, eru fá úrræði í boði. Það er eitt stöðugildi hjá SÁÁ til að hjálpa börnum í þessum aðstæðum, sem er allt of lítið. Þetta er gleymdi hópurinn sem oft lendir á milli skips og bryggju vegna þess að við erum ekki að kortleggja hlutina. Við erum ekki að setja neitt fjármagn í þetta og við erum ekki að taka á þessu þannig að þessi hópur fái þjónustu strax en lendi ekki einhvers staðar þarna á milli. Þar af leiðandi verður skaðinn meiri.