151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

höfundalög.

136. mál
[14:55]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er, eins og fram hefur komið, um að ræða þarft og gott mál sem ég styð heils hugar, enda er hér verið að greiða fyrir aðgengi hóps að rituðu máli sem er mjög mikilsvert réttindamál fyrir þann hóp sem annars ætti þess ekki kost að njóta þess.

Ég styð þetta mál og er jákvæður í garð þess og geri mér grein fyrir mikilvægi þess fyrir þennan hóp. Ég er hins vegar með örlitla breytingartillögu. Í þessu frumvarpi er talað um bætur til höfunda. Ég vil víkka það út og tala um bætur til rétthafa. Ég er ekki að koma í veg fyrir að höfundar fái bætur sínar frá hinu opinbera fyrir þessi afnot af hugverkum þeirra sem eru eðlilegar og sjálfsagðar, heldur sting ég upp á því í tillögu minni að þær bætur nái líka til annarra rétthafa.

Bók er ekki bara bók. Bók verður ekki til bara í kollinum á höfundi og nær síðan í kollinn á lesanda. Þetta er dálítið lengri og flóknari leið en svo. Flestar bækur sem koma út á Íslandi koma út á vegum bókaforlaga þar sem er rekin töluverð starfsemi. Þetta er nokkuð lífleg og umsvifamikil atvinnugrein, bókaútgáfa, og margt fólk sem hefur sérhæfingu og sérþekkingu á þessu sviði bókagerðar. Það snýst meðal annars um ritstjórnarvinnu, að hjálpa höfundi við að koma verki sínu saman og getur verið heilmikil vinna þar að baki. Sú vinna getur snúist um ýmiss konar umsýslu í kringum bækurnar. Það er markaðsstarf í kringum bækurnar, kápuhönnun, kápugerð og þannig mætti áfram telja. Það er sem sagt allnokkuð af fólki sem starfar við það að búa til bækur án þess að vera titlað höfundar og án þess að þess verði mikið vart á þessum bókmenntavettvangi. Þetta er ósýnilegt fólk sem er þarna á bak við. En það er nú samt sem áður til, þetta fólk, og það starfar við þetta og hefur viðurværi sitt af þessari iðju. Fólkið vinnur við þetta og enginn hefur rétt á því að njóta afraksturs þeirrar vinnu án þess að greiða fyrir það. Þannig er það í lífinu. Þegar við kaupum einhverja vöru greiðum við náttúrlega fyrir ákveðið vinnuframlag sem hefur verið innt af hendi og þannig er það líka með bækur. En við áttum okkur hins vegar á því að til eru þeir hópar í samfélaginu, sem er vísað til hér, sem hið opinbera þarf að hlutast til um að fái aðgang að þessum verkum án þess að greiða sjálft fyrir það. Raunar er það líka yfirleitt þannig á bókasöfnum að við þurfum bara að greiða lítið árgjald fyrir bókasafnskortið okkar og svo fáum við bækur að láni og allt gott um það að segja.

Mér finnst þetta mál vera sanngirnismál og réttindamál. En mér finnst það líka, kannski ekki jafn mikið en engu að síður, sanngirnis- og réttindamál að aðrir rétthafar en höfundar fái bætur fyrir þessi afnot. Þeir rétthafar geta verið þeir útgefendur sem ég hef nú rakið hvernig hafa lagt í alls konar kostnað í kringum bókagerðina. Þeir hafa gert samning við höfundana um að gefa út bækurnar og leggja í tiltekinn kostnað við að útbúa þær sem vöru á markaði og höfundurinn og útgefandinn skipta síðan á milli sín þeim afrakstri sem kemur þegar bókin er seld á markaði og þess njóta útgefendurnir. Á sama hátt tapa útgefendurnir þegar bókin ratar til lesenda fram hjá markaðnum. Það segir sig sjálft, það blasir við, og sanngirnismál að þeim sé bætt það. Útgefendurnir eru líka aðili að þessu máli og það er eiginlega kannski bara það sem mér finnst þetta snúast dálítið um, við þurfum að horfast í augu við að útgefendur eru aðilar að þessu máli. Þeir eru líka aðilar að því þegar kemur að samningum við Hljóðbókasafnið og þeir þurfa að vera við þetta borð ekkert síður en höfundar. Rétthafar geta líka verið fólk sem hefur erft höfundarétt, þeir geta verið afkomendur skálda og rithöfunda og það fólk hefur líka sinn rétt. Okkur kann kannski að þykja orka tvímælis að einhver sem er sonur stórskálds njóti þess eitthvað. Hví skyldi hann endilega gera það? Það er önnur umræða en þannig er litið á, alla vega samkvæmt höfundalögum. Það fólk er líka rétthafar.

Ég styð þetta mál og legg til að það verði samþykkt. En ég er með þá litlu breytingu að í stað orðanna „skal höfundur“ og orðsins „höfundar“ í 1. mgr. d-liðar 2. gr. komi: skulu rétthafar; og: rétthafar.