151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

höfundalög.

136. mál
[15:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að spyrja hv. þingmann aðeins út í nefndarálit hans og breytingartillögu og vil segja það fyrst að ég er ekkert endilega mótfallinn þeirri breytingartillögu. En mér finnst það ekki alveg rétt hjá hv. þingmanni að það sé annað mál hvort eðlilegt sé að fólk erfi það frá foreldrum sínum að hafa tekjur af hugverkum þeirra. Ef ég máta þetta við mitt eigið skinn þá er móðir mín kvikmyndagerðarmaður eins og ég hef oft nefnt áður og faðir minn er hljóðmaður og sjálfur skrifa ég hugbúnað. Ég botna ekkert í því hvers vegna ég ætti að erfa tekjur af sölu geisladiskanna sem faðir minn hefur unnið við eða tekjur af kvikmyndunum sem móðir mín hefur unnið við og ég skil ekkert í því hvers vegna barnið mitt ætti að erfa tekjurnar sem geta hlotist af þeim hugbúnaði sem ég skrifa sjálfur og gef út í dag. Sömuleiðis átta ég mig ekki á því hvers vegna ég ætti að fá bætur fyrir það að einhver taki hugbúnaðinn og breyti honum til hagsbóta fyrir fólk með fatlanir. Mér er algerlega fyrirmunað að skilja það, veit ekki hvers vegna ég ætti það skilið eða hvað væri verið að bæta mér yfir höfuð. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í þetta vegna þess að ég er ekki alveg sammála því að þetta sé annað mál. Ég held einmitt að þetta sé kjarni málsins, kjarni breytingartillögu hv. þingmanns.

Ég átta mig á orðræðu hv. þingmanns gagnvart útgefendum og get svo sem skilið þau rök, mér þykir þau rökréttari vegna þess að þar er fólk jú að fá tekjur fyrir vinnu sem það innir sjálft af hendi. En hv. þingmaður sagði hér í ræðu sinni, eins og oft er sagt í þessum umræðum, að fólk hefði ekki rétt á hugverkum annarra sem það hefur ekkert lagt til. Hvers vegna í ósköpunum eiga erfingjar rétt á tekjum af hugverkum þegar þeir sömu erfingjar hafa ekkert lagt til? Það er í sjálfu sér spurning mín til hv. þingmanns og ég átta mig á því að hér förum við kannski svolítið djúpt út í eðli höfundaréttar, en það veitir ekkert af að mínu mati. Mér finnst allt of lítið talað um hann og sér í lagi hvað séu eðlilegar takmarkanir á þessari tegund af eignarrétti.